10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

17. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Þetta mál hefur verið í fjhn. til athugunar, og n. klofnaði um það. Hv. þm. V.-Húnv. skilaði sérstöku áliti og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Fjórir nm. hafa hins vegar lagt til, að frv. verði fellt, eftir að hafa fengið upplýsingar hjá vegamálastjóra, hvernig þessum málum er háttað. Ég býst líka við, ef hv. flm. hefði fengið þær upplýsingar frá vegamálastjóra, sem meiri hl. fjhn. nú hefur, þá hefði hann aldrei flutt þetta frv. Vegamálastjórinn hefur gefið þær upplýsingar, að hann hafi lagt til við ráðuneytið, að greidd verði 50% uppbót á ferjustyrki og byggðastyrki á þessu ári. Samkv. yfirliti, sem vegamálastjóri gaf fjhn., nema styrkir, sem veittir hafa verið til þess að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum á þeim stöðum, sem hér er um að ræða, kr. 4384,27 árið 1941. En í því fjárlagafrv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir, að þessir styrkir verði 11 þús. kr., þ.e. að þeir hækki um h. u. b. 150%, sem ekki er langt fyrir neðan það, sem vísitalan er nú. Ferjustyrkir námu 1911 samtals kr. 3650, en í fjárlagafrv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir, að þeir hækki um nærri 100% frá því, eða séu 7 þús. kr. Ég held því, að hv. flm., eftir að hafa fengið þessar upplýsingar frá vegamálastjóra og eftir að hafa lesið þessar tölur, geti sætt sig við það, þótt frv. þetta verði fellt. Því að með því að áætla þessi framlög eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., má heita svo, að þessir menn, sem halda uppi byggð og gistingu vegna ferðamanna og ferja menn, fái fulla verðlagsuppbót, eða það vantar ekki mikið á það. Það er líka vitanlegt, að margir af þessum mönnum, sem þarna koma til greina, hafa þá aðstöðu, að þeir leggja ekki í tilsvarandi aukinn kostnað vegna dýrtíðarinnar, sem verðlagsvísitölunni nemur. Því að margir þeirra hafa þetta að aukastarfi og hafa ekki sérstaka menn, þar sem ég þekki til, til þess að vinna á þessu sviði. En meiri hl. fjhn. lítur svo á, að þessir menn eigi kröfu á að fá uppbætur. Og n. getur fyllilega sætt sig við þá meðferð, sem vegamálastjóri hefur lagt til, að höfð verði á þessu, samkv. þeirri till., sem hann hefur gert um þetta við ráðuneytið, og með tilliti til þess, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta að svo stöddu, en lýsi yfir eins og áður, að meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði fellt með þessum forsendum.