10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

17. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Frv. þetta er um það, að ákveðið verði, að verðlagsuppbót skuli greidd á þá styrki, sem veittir eru í 13. gr. fjárl. til ferjuhalds og til þess að halda uppi byggð og gistingu fyrir ferðamenn á afskekktum bæjum í þjóðbraut.

Eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. tók fram, vildi meiri hl. þeirrar n. ekki á þetta fallast. Ég hef hins vegar gefið út sérstakt nál. á þskj. 318 og mælt með því, að frv. yrði samþ. Það er nú einu sinni svo, að tekinn hefur verið upp sá háttur að greiða verðlagsuppbót samkv. vísitölu kauplagsn. á flesta hluti, a.m.k. á allt kaup. Og þarna er náttúrlega aðallega um kaupgjald að ræða, t.d. að því er snertir ferjustyrki, og raunar hitt líka. Og mér sýnist það vera sanngirnismál, að þeir, sem halda uppi þessari þjónustu, fái sams konar uppbót á laun sin eins og aðrir menn í þessu landi. Sú hækkun, sem í fjárlagafrv. er lagt til, að gerð verði á þessum liðum, nemur ekki svipað því, sem hækkunin mundi verða, ef greidd væri verðlagsuppbót á þessa styrki. Auk þess liggur þar ekkert fyrir um það, hvort hækkun upphæðarinnar er eingöngu vegna þess, að þeir, sem áður hafa fengið þessa styrki, eigi að fá hækkun á þeim, eða hvort hún er vegna þess, að um fleiri sé að ræða, sem eigi að fá þessa styrki.

Ég legg því til, að frv. verði samþ.