13.01.1943
Neðri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Sumir hv. þm. hafa haldið því fram, að hér væri á ferðinni n. miklu valdameiri en aðrar n., sem nú eru starfandi hér á landi. Þetta kann að vera rétt, en ég tel það eftir atvikum þessari ráðstöfun til gildis. Ég bið hv. þm. að athuga, að þetta vald hefur þegar verið gefið n. manna, ekki 5 mönnum, heldur 10, undir eftirliti núverandi ríkisstj. Og nokkur munur er á því, hvort þetta vald er fengið 5 mönnum eða 10 undir eftirliti stj. En raunverulega er stj. ekki fengið með þessu neitt vald umfram það. sem hún hefur nú, og því er hér í rauninni um formsatriði að ræða. Slíkar n. sem þessi hafa ekki áður verið skipaðar af Alþ., og má auðvitað deila um það, hve heppileg slík nefndarskipun sé, en úr því mun verða skorið, þegar til framkvæmdanna kemur. Stj. leggur því megináherzlu á það, að hún fái að ráða vali manna í þessa n., en þetta kemur ekki á neinn hátt í bága við þann vilja hennar að hafa góða samvinnu við Alþ.