08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Allshn. hefur haft mál þetta til athugunar og rætt það allýtarlega og orðið á einu máli um að mæla með, að það verði samþ. í þessari hv. d., enda þótt umsögn landlæknis sé ákveðið á móti því, að frv. nái fram að ganga. En n. leitaði að sjálfsögðu umsagnar landlæknis um frv. það, er hér um ræðir.

Í frv. er farið fram á, að ef sveitar-, bæjar- eða sýslufélög vilja reisa sjúkrahús, þá leggi ríkissjóður fram að hálfu leyti stofnkostnað þeirra. Það er m.ö.o. verið að fara fram á það, að hlutfalli milli framlags viðkomandi sveitar-, bæjar- eða sýslufélags og ríkissjóðs sé slegið föstu. Um þetta atriði er enn ekkert ákvæði í 1., en venjan hefur verið sú, að fé hefur verið veitt í þessu skyni í fjárl., sem svo heilbrigðisstj. hefur úthlutað eftir eigin mati og lagt þá venjulega fram 1/3 hluta af stofnkostnaði sjúkrahúsanna.

Allshn. vill fallast á, að þetta verði samþ., að með l. verði ákveðið, að hve miklu leyti ríkið taki þátt í stofnkostnaði sjúkrahúsa á móti sveitarfélögum, að í þessu tilfelli séu skýrt dregnar línur, eins og t.d. er gert, hvað viðvíkur byggingu annarra mannvirkja. Um stofnkostnað hafnarmannvirkja gilda fastar reglur, hvernig hann skiptist milli aðila, og er ekki nema réttmætt og sjálfsagt, að svo sé og um byggingu sjúkrahúsa, en að það sé ekki sett í vald heilbrigðisstj. að ákveða í hvert skipti, hve mikið framlagið skuli vera.

Það kynni nú e.t.v. einhver að ætla, að þetta mundi verða misnotað, að ráðizt yrði í byggingu sjúkrahúss til þess að fá framlag ríkissjóðs, án þess að nauðsyn væri á því, að það yrði reist, en ég held, að þetta hafi ekki við rök að styðjast. Eins og ástandið er hjá okkur í þessum málum, þá er vöntun á þessum byggingum um allt land, og rekstur sjúkrahúsa er á þann veg, að það er einmitt meiri eða minni kostnaður, sem fylgir rekstri þeirra, svo að þessu athuguðu er harla lítil von til þess, að bæjareða sveitarfélög fari að ráðast í byggingu sjúkrahúsa að óþörfu.

Í frv. er og gert ráð fyrir styrk til sjúkrahúsa vegna legu utanplássmanna. Það er svo um flest sjúkrahús, að í þeim liggja fleiri eða færri utanhéraðssjúklingar. Sjúkrahúsin eru flest í bæjunum, og hljóta því sjúklingar úr sveitunum að sækja til bæjanna og liggja í sjúkrahúsum þar. En þó að það megi teljast sanngjarnt, að sjúkrahús beri kostnað af veru innansveitarsjúklinga þar, þá er allt öðru máli að gegna með utansveitarsjúklinga, og því ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður hlaupi þar undir bagga.

Það hefur verið reynt að bera því við, að erfiðleikum yrði bundið að fylgjast með, að þetta ákvæði yrði ekki misnotað og erfitt yrði að fylgjast með legudögum utansveitarsjúklinga. Eftir því, sem ég hef kynnt mér þetta atriði, þá hef ég komizt að raun um, að tiltölulega auðvelt er t.d. hér í Rvík að fylgjast með þessu af bókhaldi því, sem sjúkrahúsin færa yfir sjúklinga sína.

Landlæknir benti á, að hætta væri á, að bæjarfélögin misnotuðu þetta með því, að þau mundu leggja inn sína sjúklinga á sjúkrahús annarra sveita. T.d. ef sjúkrahús væri hér á Seltjarnarnesinu, gæti bærinn notfært sér að leggja sjúklinga á sjúkrahús, sem þar væri. Þessi viðbára virðist öllum nm. vera fráleit og ekki væri neitt á henni að byggja. Læknarnir, sem mundu sjálfsagt ráða því, hvar sjúklingarnir lægju, mundu eðlilega leggja áherzlu á að hafa þá sem næsta sér og þar, sem þeir fengju bezta aðhlynningu, en ákvæið frv. mundi engu breyta í því tilfelli, eins og allir hljóta að sjá.

Eins og ég sagði í upphafi, hefur allshn. orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. í hv. d.