08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins segja nokkur orð, vegna þess að fjvn., sem nú starfar, hefur byrjað á, svipuðum vinnubrögðum. Sumir hv. þm, eru ekki kunnugir þessum efnum, því að till. hefur lítið verið rædd í fjvn.

Í samráði við landlækni hefur verið gert ráð fyrir fjórðungsspítölum, og mundu helztu spítalar hvers fjórðungs koma þar til greina. Landsspítalinn, sjúkrahúsið á Ísafirði, sjúkrahúsið á Akureyri og að líkindum sjúkrahúsið á Seyðisfirði, en eigi er það fullráðið.

Er gert ráð fyrir, að heppilegt verði að efla þrjú hin fyrrnefndu sjúkrahús með fjárframlög um, og ættu utanbæjarmenn aðgang að þeim.

Sjúkrahúsið á Ísafirði hefur verið aðalsjúkrahús Vestfjarða um skeið. Á Akureyri er bygging spítala hafin fyrir nokkru, en fjárframlög hafa ekki verið samþ. til hans.

Ef spítalarnir á Ísafirði og Akureyri fá viðurkenningu sem fjórðungsspítalar, þá verður Austurland útundan. En þetta mál er eigi langt komið. Ísafjarðarspítali hefur engin slík réttindi fengið. Spítalinn, sem byrjað er að byggja á Akureyri, er og fyrir Norðurland. Nú liggur í augum uppi, að ekki nær nokkurri átt, að Akureyri beri ein kostnaðinn af spítalabyggingunni, heldur verður ríkið að bera nokkurn hluta kostnaðarins.

Nú stendur svo á, að bezti spítali Austurlands er á Seyðisfirði. Gert er ráð fyrir, að hann verði fyrir Austurland, en síðar mætti taka ákvörðun um það, hvort hann yrði þar áfram eða upp á Héraði eða annars staðar, sem betur þætti henta. Því verður ekki neitað, að landsspítalinn er til sérstakra hlunninda fyrir Rvík og á Suðvesturlandi, og væri því eðlilegt, að í hinum landsfjórðungunum risu upp spítalar til jafnvægis við Rvík. Með byggingu spítalans á Akureyri sem spítala fyrir Norðurland er stigið spor í þá átt.

Ég álít það eftirsóknarvert að koma á fjórðungsspítölum. Þar, sem góðir spítalar eru, eru meiri líkur til, að góðir læknar staðfestist. Á Akureyri er nú mjög góður skurðlæknir, en engin trygging er fyrir því, að hann verði þar áfram, ef spítalanum verður ekki sómi sýndur.

Það er hin mesta nauðsyn, að spítalar verði reistir í héruðunum, og hefur það komið í ljós, að það er gott fyrirkomulag. Ég vil leyfa mér að taka dæmi úr mínu kjördæmi, þótt það sé ef til vill ekki viðeigandi. Á Húsavík hefur verið reistur spítali með um 70 rúmum. Landið lagði fram 1/3 kostnaðar, sýsla og hreppur 2/3. Hefur hann reynzt hæfilegur fyrir héraðið, og hefur það risið undir kostnaðinum með hæfilegum álögum. Ofar í héraðinu er gert ráð fyrir að reisa annan spítala.

Ég held, að eftir þeirri reynslu, sem fengin er á Húsavík, sem er þorp með um 1000 íbúa, þá sé hægt að leysa þetta mál þjáningalaust eg enginn ávinningur sé að hafa spítalana stærri.

Á undanförnum 30 árum hafa verið reist sjúkrahús í sambandi við læknisbústaði, einkum þar, sem orð hefur farið af læknunum. Þegar þeir hafa flutt burt, hafa skýlin staðið auð, undir stjórn hversdagslegri lækna.

Ég held, að sjúkrahús, sem byggð yrðu samkv. þessu frv., yrðu of stór og því meiri hætta á rekstrarhalla. Mun ég því greiða atkv. á móti frv., þótt það stefni að nokkru leyti í rétta átt, og heldur ganga inn á þá leið að hlynna að fjórðungsspítölum.