08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Út af því, sem hv. 3. landsk. sagði, vil ég taka það fram, að í grg. var ekki minnzt á álit landlæknis, en ég hef áður gert ýtarlega grein fyrir því. Nefndin gat ekki fallizt á till. frá honum.

Þá minntist hv. 3. landsk. á, að ekki væri rétt að fara eftir sömu hlutföllum við styrkveitingu til sveitarfélaga úr ríkissjóði til byggingar spítala. Ég held, að hér sé ekki rétt með farið. Alþ. fer eftir föstum reglum um styrkveitingar til hafnarmannvirkja og bryggjugerða. Tel ég rétt að slá því föstu að fara einnig eftir föstum reglum í þessu efni.

Út af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um það; að hætta væri á því, að byggð yrðu of stór sjúkrahús og miðað væri við þá lækna, sem væru í það skipti, vil ég taka fram, að mér virðist fráleitt að miða við þá lækna, sem eru í héraðinu. Sjúkrahúsin eiga að standa lengi, en læknarnir eru alltaf að koma og fara. Ég efast mjög um, að til þess kæmi nokkurn tíma, að sveitarfélög færi að byggja of stór sjúkrahús.

Ég verð að segja, að mér virðist þetta frv. mjög þýðingarmikið eins og það liggur fyrir og talsvert unnið með því. Það er ekkert þýðingarlítið fyrir sveitarfélögin að vita, hve stóran hluta þau eiga rétt á að fá úr ríkissjóði. Það er talsvert mikils virði að eiga ekki allt undir náð og miskunn heilbrigðisstj. Það er óþolandi fyrir sveitar- og bæjarfélögin að halda uppi stórum og dýrum sjúkrahúsum, sem meira og minna er íþyngt af utansveitarmönnum. — Virðist mér, að Alþ. ætti ekki að hika við að samþ. frv.