16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. snerust umr. nokkuð um það, og var gert allmikið úr því, að landlæknir væri mjög á annarri skoðun um efni þessa frv. heldur en flm. og hv. allshn., sem mælir með samþykkt þessa frv. Það kom þá einnig fram í umr., að þm. óskuðu eftir því að fá að sjá það bréf landlæknis, sem rætt var um í þessu sambandi. Nú hefur hv. allshn. orðið við þessu og gefið út framhaldsnál., þar sem bréf landlæknis er birt, svo að hv. þm. gefist kostur á því að kynna sér bréfið og skoðun landlæknis í þessu máli. Ég hef athugað þetta bréf, og sýnist mér eftir því, að í rauninni sé ekki mikill skoðanamunur milli mín sem flm. þessa frv. og allshn. annars vegar og landlæknis hins vegar. Mér finnst landlæknir að mestu leyti vera sammála frv. efnislega séð. Aðalatriði þessa frv. er, eins og kunnugt er, tvenns konar. Annars vegar að því skuli slegið föstu með l., að ríkissjóður skuli taka þátt í stofnkostnaði sjúkrahúsa, hins vegar, að því skuli með l. slegið föstu, að ríkissjóður skuli taka þátt í rekstri þeirra sjúkrahúsa, sem sótt eru af utanhéraðssjúklingum. Um fyrra atriðið, þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaðinum. sé ég ekki betur en að landlæknir sé á sama máli og ég um það, að sú þátttaka ríkissjóðs hafi verið of lítil hlutfallslega. Hann álítur, að hún eigi að vera meiri en hún nú er. Hins vegar ber hann því við, að fjárveitingar í þessu efni hafi undanfarið verið það litlar, að hann sem landlæknir hafi ekki haft ráð á því að úthluta viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum meira fé til þátttöku í stofnkostnaði sjúkrahúsa. Hann segir, að það hafi ekki staðið á heilbrigðisstj. að krefjast minna framlags af bæjunum, ef til þess væri veitt nægilegt fé í fjárlögum. Þarna er hann á sama máli og ég um þetta atriði og sammála því, sem kemur fram í frv. Hins vegar virðist landlæknir bera kviðboga fyrir því, að frv. nái ekki tilgangi sínum að þessu leyti, þó að samþ. yrði.

Ég álít hins vegar, að frv. mundi bæta úr hvað þetta snertir. Landlæknir segir, að til þessa hafi verið áætlað svo lítið fé, að ekki hafi verið hægt að ganga lengra um þessar fjárveitingar. En af hverju hefur ekki verið veitt meira fé til þessa? Ég held, að það hafi að verulegu leyti verið vegna þess, að ríkið hefur ekki verið lagalega bundið um slík fjárframlög. Ég held, að um leið og því væri slegið föstu með l., að ríkissjóður væri skuldbundinn til að taka á sig ákveðinn hluta af stofnkostnaðinum, mundi það vera tryggt, að nægilegt fé yrði veitt til þess í fjárl., að ríkissjóður gæti staðið við sínar skuldbindingar í þessum efnum.

Um hitt atriði frv., þátttöku ríkissjóðs í rekstrarkostnaði sjúkrahúsa vegna aðsóknar utanhéraðssjúklinga, segir í bréfinu: „Ég fellst að efninu til á réttmæti þess, að slíkir sjúkrahúsastyrkir verði teknir upp. Og á öðrum stað segir: „að það sé ástæða til að koma efni frv. og þá sérstaklega b-lið 1. gr. á framfæri við fjvn.“ Landlæknir fellst líka að efninu til á þetta atriði frv., hann viðurkennir nauðsyn þess, að sjúkrahúsunum sé veittur nokkur styrkur, til þess að þau verði ekki fyrir rekstrarhalla vegna aðsóknar utanhéraðssjúklinga. En að hinu leytinu kemur fram í bréfi landlæknis þó nokkur ágreiningur um það, hvort eigi að slá þessu föstu í l. eins og ég vil. Landlæknir virðist vera mikið á móti því, að það sé gert, en ætlast til, að meira fé verði veitt í fjárl. til þess að geta orðið við þessu hvoru tveggja, en ætlast til, að þessu fé verði varið til heilbrigðismála, án þess að það sé bundið föstum reglum. Ég held, að það, sem kemur til kasta þessarar hv. d. og Alþ., sé einmitt þetta, að ákveða, hvort um þetta skuli setja fastar reglur í l. og hvernig skuli varið því fé, sem til þess yrði áætlað, eða hvort landlæknir eigi að hafa þetta einvörðungu í hendi sinni og geti í rauninni farið um þetta eftir eigin geðþótta. Ég fyrir mitt leyti álít, að það út af fyrir sig, sé atriði, sem Alþ. þurfi að taka afstöðu til. Það er talið nauðsynlegt að setja fastar reglur viðvíkjandi framlögum ríkisins til skóla og annarra stofnana. Ég vil í því sambandi minna á ræðu, sem einn samflokksmaður landlæknis, hv. 4. þm. Reykv., flutti nú fyrir skömmu í sambandi við afgreiðslu fjárl. Í þessari ræðu lagði hann áherzlu á það, að Alþ., samkv. ítrekuðum ákvæðum stjskr., hefði vald til þess að ráðstafa fjárveitingunum úr ríkissjóði, sem ákveðnar eru í fjárl. Hann lagði einnig áherzlu á það, að Alþ. léti ekki slíkt vald úr höndum sér eða fæli einstaklingum eða einstökum opinberum trúnaðarmönnum ráðstöfunarrétt á þessu fé, heldur ættu að vera um þetta fastar reglur, sem starfsmenn ríkisins væru bundnir við. Þarna kemur fram sama skoðun og ég hef leyft mér að halda fram í þessu tilfelli, sem sé, að ekki sé nægilegt, að viðurkennd sé nauðsyn þess að leggja fram meira fé til að styrkja byggingu sjúkrahúsa og létta undir með rekstri þeirra, heldur verði Alþingi einnig að setja fastar reglur um það, hvernig því skuli varið,, og það eigi ekki að vera á valdi einstakra starfsmanna ríkisins, hvernig með þetta fé sé farið í einstökum tilfellum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en ég vil undirstrika það, að mér sýnist það koma fram í bréfi landlæknis, að hann sé efnislega sammála frv., en ágreiningur sé aðeins um þetta atriði, sem ég síðast talaði um. Ég vænti þess, að hv. d. fallist á að samþ. frv. og telji nauðsynlegt að slá því föstu í l., hvernig fé ríkisins, sem veitt yrði í þessu skyni, yrði varið.

Þá vil ég aðeins minnast á brtt., sem ég hef leyft mér að flytja við frv., og er hún flutt í tilefni af þessu bréfi landlæknis. Ein af þeim rökum, sem landlæknir færði gegn frv., var það, að ekki væri nógu ákveðið orðalag um það, hvenær bæri að veita rekstrarstyrki þá, sem hér um ræðir. Til þess að losa heilbrigðisstj. við öll heilabrot um þetta atriði, hef ég flutt brtt. um það, að orðin: „að verulegu leyti“ í b-lið 1. gr. falli burt er aðeins um orðalagsbreyt. að ræða, en ekki efnisbreyt., og ætti það ekki að verða að ágreiningsefni.

Ég vil svo að lokum vænta þess, að hv. d. samþ. frv. að öðru leyti, eins og hv. allshn. hefur lagt til.