16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Jónas Jónsson:

Ég er nú að mestu leyti samdóma síðasta ræðumanni, en vil bæta við frá annarri hlið nokkrum rökum. Það er að mörgu leyti mjög óheppilegt að breyta skipulagsmálum þjóðarinnar á þeim tímum, sem nú eru. Við vitum, að verðgildi peninga er á hverfanda hveli. Ríkið ræður yfir meiri peningum en áður og heldur en líkur eru til, að það ráði yfir í framtíðinni. Þess vegna getur verið, að þær ráðstafanir, sem nú virðast líta vel út, geti átt illa við síðar. Þetta er aðalástæðan til þess, að ég álít, að ekki eigi að breyta l. frá 1933 eins og stendur. Í öðru lagi er það rangt, að það sé sérstök ástæða til þess að hlaupa undir bagga með sjúkraskýlunum, þegar þorp eins og Húsavík, með um 1000 manns, hefur getað byggt sjúkrahús nægilega stórt fyrir þorpið og jafnvel getað liðsinnt utanhéraðsmönnum, og það hefur verið rekið svo, að það hefur hvorki verið of dýrt fyrir landið né héraðið. Aftur hefur komið fyrir á öðrum stöðum á landinu, að það hafa verið byggð of stór sjúkrahús, stærri en hægt hefur verið að starfrækja. Það hefur komið af því, að menn hafa verið of stórhuga eða á einhverju tímabili hafa verið þar læknar, sem hafa verið sóttir úr öðrum héruðum, og niðurstaðan hefur orðið sú, að þessi sjúkrahús standa auð eða hálfauð og eru að grotna niður vegna þess, að þau eru ekki notuð og eru til stórkostlegrar byrði fyrir sveitina og landið.

Aftur hefur landlæknir, í samráði við n., sem hefur starfað að þessum málum, lagt fram „plan“, sem búið er að ganga frá eftir því, sem hægt var. Það er það, að sjúkraskýli séu miðuð við heimamenn, en svo séu byggðir fjórðungsspítalar, einn á Norðurlandi, annar á Austurlandi og hinn þriðji á Vesturlandi, og til þeirra sæki fólk, sem ekki fer til Rvíkur til sérstakra aðgerða. Ég vona, að hv. flm. taki það ekki nærri sér, þó að ég segi, að hann hafi ekki aðstöðu til þess að koma fram sem keppinautur heilbrigðisstj. í þessu máli; ég býst við, að hann tali hér sem heimilismaður frá Akureyri. Það er fullkominn misskilningur að samþ. þetta frv. eða ástæða sé til að byggja stærri sjúkrahús, en það er fullkomið rannsóknarefni, á hvern hátt skuli hlynna að þessum fjórðungspítölum. Við skulum t.d. athuga, hvort Austurlandi er ekki nauðsyn á að hafa verulega gott sjúkrahús, sem allir gætu leitað til. Ef nota á þessa óvenjulegu tíma, sem við lifum á, til þess að koma fram fljóthugsuðum kjarabótum, er það ekki nema misskilningur, og virðist frsm. þessa máls ganga alveg fram hjá þeim rökum, sem landlæknir hefur borið hér fram, án þess að koma með rök á móti, sem séu nokkurs virði.

Ég álít, að það eigi að svæfa þetta frv. hér í þessari d., ef það verður ekki hér, þá í Nd., ef það verður ekki, hlýtur samt að koma að því, að farin verði önnur leið í þessum málum.