16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2943)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Magnús Jónsson:

Ég get ekki neitað því, að mér finnst allshn: ekki hafa tekið nógu föstum tökum á þessu máli. Það er enginn vafi á því, að í þessu frv. eru atriði, sem eru varhugaverð. Ég get sagt það, að um a-liðinn er ég alveg sammála því, að slegið sé föstu því gjaldi eða þeim styrk, sem ríkið borgar fyrir að koma upp sjúkrahúsum, þó að ég sé ekki alveg viss um, að rétt sé að láta hið sama ganga yfir alla. Ég veit t.d., þegar um er að ræða hafnargerðir eða lendingarbætur, hefur ekki þótt ástæða til þess að láta sömu reglur gilda. Mér finnst líka, að þar sem I. frá 1933 taka upp alls konar sjúkrahús og hæli og hressingarheimili, geti verið ólíku saman að jafna. T.d., hvort í Rvík væri reist geysistórt og fullkomið sjúkrahús með alls konar nýtízku útbúnaði, sem hefði á að skipa alls konar liði, eða hvort komið er upp sjúkraskýli með 3–4 sjúkrarúmum til að geta veitt aðhlynningu sjúklingum, sem þan kunna að koma. Það er dálítið einstrengingsleg regla, að alltaf taki ríkissjóður þennan sama þátt.

Það er dálítið til í því hjá landlækni, að í fjárl. verða að vera þeim mun færri byggingar, sem slegið er föstum hækkuðum styrk til hverrar um sig.

Um b-liðinn verð ég að segja, að hann þyrfti n. að taka fastari tökum. Það er rétt, að landlæknir féllst á, að slíkar greiðslur fari fram, en það er ekki hægt að neita því, að um ýmsa annmarka, sem hann telur á þessu, er réttilega að fundið. Það er mjög hæpið að miða ríkissjóðsframlagið við daggjaldið eitt og leggja það atriði óskorað á vald þess bæjar- eða sveitarfélags, sem hefur komið upp sjúkrahúsinu. Það stappar nærri, að óhæft sé að samþ. það. Ég sé ekki, hvað getur komið í veg fyrir, að sveitarfél. reki sjúkrahús með svo og svo háum gjöldum og létti svo sínu fólki greiðslu þeirra. Það yrði léttir fyrir bæjar- eða sveitarfél. að hafa heldur tekjur en gjöld af rekstri sjúkrahússins. Það ætti heimtingu á 1/3 af daggjöldunum úr ríkissjóði, og ég sé ekki, að ríkisstj. sé gefið neitt tækifæri til að hafa eftirlit. Hann fær bara endurskoðaða skýrslu um legudaga. Þetta hlyti að vera hægt að koma í veg fyrir með ákvæði í sjálfu frv., og það hef ég óskað, að hv. n. í samvinnu við flm. og landlækni leitist við að finna ráð við. Það verða nóg göt á l., þó að reynt sé að bæta þau götin, sem maður sér fyrir. T.d. það, sem landlæknir hendir á og ekki er hindrað með neinu ákvæði í frv., að bæjarfélögin sendi hvert öðru sjúklinga, Rvík fengi stórfé með Hafnarfjarðarsjúklingum og öfugt. Að hægt skuli vera að reka slíka verzlun, er ófær galli á frv.

Ég hef ekki treyst mér til að vera að káfa við frv., enda er það n. verk. Að gera slíkan holskurð, eins og að fella c-lið alveg niður, er mjög slæmt, því að það verður að viðurkenna þá hugsun í b-lið, ef hérað hefur lagt í ærinn kostnað við að reisa og reka sjúkrahús með allmiklum halla, þá er hart, að þau héruð, sem ekki vilja leggja það sama á sig, geti sent sína sjúklinga þangað og eiginlega haft fé út úr því. Ef n. telur sig ekki hafa tíma til að gera þessar umbætur, væri þó skömminni skárra, ef hún hefði bætt því í frv., að um þessi ákveðnu atriði skyldi setja reglugerð, en hvorki í frv. né í l. er nein heimild til þess.

Ég vil í allri vinsemd skjóta því til n. að taka málið til nánari athugunar, og ég vil taka undir ósk hv. þm. Barð., að umr. verði frestað. Ég er eindregið meðmæltur aðalatriðum frv. og vil því ekki að svo komnu segja, hvaða afstöðu ég mundi taka við atkvgr., ef frv. kæmi til atkvgr. strax.