16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. það hafa ýmsar aths. komið fram hjá lm. ræðumönnum, og ýmsir byggja á röksemdum landlæknis í bréfi hans. Eins og hv. þm. Barð. tók fram áðan, er ágreiningur millí mín og landlæknis um það, hvort eigi að samþ. frv. eða fella, en hitt er líka rétt, að hann byggist ekki á efni frv., landlæknir fellst á efnishlið þess, heldur er hann aðeins um það, hvort á að setja um það fastar reglur í sjálfri löggjöfinni, í hvaða hlutfalli ríkið taki þátt í byggingakostnaði sjúkrahúsa og rekstrarhalla þeirra vegna dvalar utanhéraðssjúklinga eða hvort yfirstjórn heilbrigðismálanna, þ.e. landlæknir, skuli hafa það á sínu valdi.

Hv. þm. Barð. tók upp þá röksemd landlæknis, að erfitt væri að finna algilda reglu um úthlutun á þessu fé. Þetta er ein af aðalröksemdum landlæknis gegn frv., og ég held, að hún sé fram komin fyrst og fremst til réttlætingar þeirri ósk hans að hafa þetta sem mest sjálfur á valdi sínu.

Ég vil annars leggja áherzlu á það aftur, hve nauðsynlegt er, að Alþ. afsali sér ekki réttinum til að ráðstafa slíkum fjárveitingum, svo að þær séu ekki komnar undir geðþótta einstakra manna.

Hv. þm. S.-Þ. talaði gegn frv., og aðalrök hans voru þau sömu og við 2. umr., að ekki væri þörf á að ýta undir stækkun sjúkraskýla. Það má vera, að það megi finna dæmi þess á fámennum stöðum, að sjúkraskýlin séu stærri en reynslan hefur sýnt, að nauðsynlegt væri, en almenna reglan er sú, að vöntun sé á sjúkrahúsrými, og því er aðkallandi að reyna að bæta úr þeirri vöntun, helzt með því, að ríkissjóður leggi fram meira fé en hann hefur gert til þessa.

Sami ræðumaður sagði, að ekki væri rétt að gera slíka skipulagsbreyt. á tímum eins og nú væru, þó að þær breyt. væru ekki fráleitar. Mér finnst hann þarna hafa viðurkennt, að ákvæði frv. séu ekki fráleit.

Ýmsir ræðumenn hafa lagt áherzlu á, að það væri galli á b-lið frvgr., að sá styrkur, sem þar er kveðið á um til rekstrar sjúkrahúsa, sé aðeins miðaður við upphæð daggjalda án frekari skorða. Það má vera, að í þessu kunni að felast hætta, en reynslan sýnir samt, að yfirleitt er halli á rekstri sjúkrahúsa. Ég lít svo á, að það geti naumast verið tilhneiging hjá bæjar- og sveitarstj. til að setja daggjöldin, sem fyrst og fremst gilda fyrir meðlimi þess bæjar- eða sveitarfél., svo hátt, að af rekstri sjúkrahúsanna yrði gróði, og í frv. er það einnig bundið, að ekki sé hægt að beita þessu gagnvart utanhéraðssjúklingum, en áður var heimild í l. til að hafa þeirra gjöld hærri. Engu að siður get ég fallizt á, úr því að fram hafa komið svo ákveðnar raddir um þetta atriði, að bætt verði í frv. ákvæði um, að sjúkrahús geti því aðeins gert kröfu til framlags, að heilbrigðisstj. samþ. daggjöldin. Ef brtt. kemur fram um það, get ég fallizt á hana til þess að byggja fyrir tortryggni í garð bæjarfélaga um, að þau mundu misnota þetta ákvæði.

Þá kemur og fram í bréfi landlæknis, og reyndar líka í ræðu hv. 1. þm. Reykv., ótti við, að bæjarfélögin mundu líka á annan hátt reyna að misnota ákvæði frv., nefnilega hvað það snertir að senda sjúklinga á milli héraða, til þess að fá sem mest úr ríkissjóði. Ég tek þetta ekki svo alvarlega og finnst það vera sett fram meira sem tylliástæða til að verða frv. að falli en sem raunveruleg röksemd, enda virðist sú skoðun ekki reist á fastari fótum en að slíkur möguleiki sé aðeins til á pappírnum. Mér datt þessi möguleiki ekki í hug. En þó að það kynni að vera svo mikið einstaklingsframtak hjá einhverri bæjarstj., mundi þetta stranda á sjúklingunum sjálfum. Ég held, að þeim væri ekki keppikefli að fara burt af heimilum sínum, nem þeir mættu til, eða af sjúkrahúsi í sinni heimilissveit eða heimilislæ.

Hv. 3. landsk. þm. talaði um, að sér fyndist hlutfallið í b-lið, að — ríkissjóður greiði 1/3 daggjalds, tekið af handahófi. Það er rétt. Það er ekki hægt annað en gera það, því að fyrir þessu er engin reynsla, og engin reynsla fæst fyrr en búið er að setja ákvæði og fara eftir þeim. Ef fengin væri reikningsleg niður staða um, að þetta hlutfall væri rangt, mundi þurfa að breyta því. En ég setti þetta eins og ég áleit. að færi næst. og það hafa ekki komið fram í umr. uppástungur um annað og betra hlutfall.

Það má vera, að komið hafi fram fleiri mótbárur í ræðu þessa hv. þm., sem hér hafa talað, en ég held yfirleitt, að þau rök, sem fram hafa komið, séu svo veigalítil, að ekki sé ástæða til að fella frv. þeirra vegna. Veigamestu rökin voru um daggjöldin, að hafa hemil á þeim, ef víðkomandi bæjar- eða sveitarfélög skyldu freistast til þess að setja þau svo há, að hægt væri að ætla; að þau væru notuð sem féþúfa. Ég get þess vegna fallizt á, að heilbrigðisstj. ákveði þau. En þá held ég líka, að útilokuð sé sú hætta, að þau verði sett hátt til þess að græða á ríkissjóði.