16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Magnús Jónsson:

Ég hafði skrifað niður nokkur atriði af því, sem flm. frv. færði fram sem rök um það, en þau eru nú úr sögunni með þeirri brtt., sem komin er fram, og tel ég það mikinn kost við þessa umr., að sú brtt. er fram komin. Mér sýnist hún bæta úr meginótta mínum við, að þetta frv. geti leitt til misnotkunar, og verður að treysta því, að heilbrigðisstjórn hvers tíma verði svo sanngjörn, að hún stilli daggjöldum í hóf. En það virtist mér áður vera á valdi þeirra, sem sjúkrahúsin kynnu að reka. Ég vil því samþ. brtt. og tel hana verulega til bóta.

Mér skildist á hv. flm., að ágreiningurinn væri eiginlega um, hvort úrskurða skyldi í l. eða hvort ákveða skyldi á hverjum tíma af fjárveitingarvaldinu, hvernig varið skyldi fjárveitingum til sjúkrahúsa úr ríkissjóði. Mér skilst, að um a-lið gildi ákveðin lagafyrirmæli, en b-liður verði að greiðast úr ríkissjóði á hverjum tíma. fjárveitingarvaldið getur ekki gert annað en greitt styrkinn samkv. b-lið, hversu mikill sem hann verður. Það ber því að vanda nokkuð til þess, að daggjöldin séu hæfileg. Það er rétt, sem hv. 4. landsk. sagði, að það yrði í þágu bæjarfélaganna að ákveða daggjöldin sem lægst, án þess að sjúkrahúsin séu rekin með tapi. En það er ómögulegt að neita, að með þessu frv., ef að l. yrði, kemur upp nýtt atriði. Hér er ekki um smáatriði að ræða, ef sjúkrahúss-rekstur nemur mörgum tugum þúsunda á ári. Þetta var önnur mótbára landlæknis.

Svo er hitt atriðið, að hægt sé að misnota heimild l. til að senda sjúklinga í sjúkrahús annars umdæmis en þeir heyra undir. Þetta á í rauninni ekki að geta átt sér stað. Hv. flm. gat þess, að sjúklingar mundu helzt vilja dvelja á sjúkrahúsum nálægt heimili sínu. Þetta mun vera rétt, en nú er svo víða, að sjúkrahús sjúklings í umdæmi hans getur verið lengra frá heimili hans heldur en sjúkrahús í öðru umdæmi. Segjum t.d. að Eyjafjörður og Akureyri eigi að vera um eitt sjúkrahús og Húsavík og Þingeyjarsýsla um annað. Í því tilfelli myndi sjúklingur úr Bárðardal vera jafnmikið að heiman á Húsavík og á Akureyri. Í l. er og til undanþága í svipuðu tilfelli og því, er ég nú tók sem dæmi. Ég tel, að slíkt sem þetta mætti lagfæra mikið með því að setja um það reglugerð. Ég er hér með brtt., sem ég vildi bera fram, og er hún skrifleg. Hún er við 1. gr. frv. og er þannig, að við 1. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Setja má, með reglugerð ákvæði til þess að koma í veg fyrir misnotkun þess, að ríkissjóður greiði meðlag með utanhéraðssjúklingum samkv. 1. mgr. b-liðar.“

Ég tel þessa brtt. til bóta og alls ekki skemma frv., en ég er fylgjandi frv. og vildi því stuðla að því, að það yrði sem bezt úr garði gert.

Ég vil svo bera fram þessa skrifl. brtt. mína og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.