14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir um innflutning og gjaldeyrismeðferð, hefur legið fyrir hv. Nd. og er því hv. þdm. að nokkru kunnugt. Á hinu upprunalega frv. hafa að vísu verið gerðar nokkrar smávægilegar breyt., sem hafa ekki verið miklar efnisbreyt., og hefur stj. því samþ. að fallast á þær.

Hér er að mestu um að ræða formbreyt., þ.e. sameining ýmsra ráðstafana, sem gerðar hafa verið vegna stríðsins. Þetta á þó ekki að öllu leyti við um Gjaldeyris- og innflutningsn., sem hefur nú starfað um 11 ára skeið.

Það, sem hér er gert ráð fyrir að gera, er að sameina starfssvið Gjaldeyris- og innflutningsn., sem nú hefur haft með höndum úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa, einnig Dómnefndar í verðlagsmálum, sem verðlag heyrir nú algjörlega undir, enn fremur úthlutun á farmrými skipa, er flytja vörur til landsins, og ekki hefur enn verið skipulagt, nema Viðskiptamálaráðuneytið hefur haft hönd í bagga með úthlutun farmrýmis til innflutnings á skömmtunarvörum. Í fjórða lagi á Skömmtunarskrifstofa ríkisins að koma undir valdssvið þessa ráðs og í fimmta lagi á það að annast um innkaup á þeim vörum frá Ameríku, sem keyptar hafa verið í gegnum láns- og leigustofnunina í Washington samkvæmt samningunum við Bandaríkin. Nú undanfarið hafa verið miklir erfiðleikar á að fá þessar vörur keyptar hingað að vestan, því að þetta eru vörur, sem eru aðallega notaðar til hergagnaframleiðslu. Það má einnig gera ráð fyrir, þótt það liggi ekki beint fyrir nú, að þeim vörutegundum fari fjölgandi, sem þannig þarf að kaupa.

Sú ráðstöfun, sem nú gildir, að láta Viðskiptan. annast um þessi kaup, getur ekki verið til frambúðar. Mér er það sjálfum vel kunnugt, því að ég hef haft með innkaup á þessum vörum að gera, síðan þetta fyrirkomulag var sett á, og er það vel ljóst, að því þarf að breyta. Þetta er þá sú sameining, sem mundi fara fram með skipun Viðskiptaráðs, og álit ég, að það ætti að vera til stórbóta í framkvæmdinni. Ríkisstj. hefur að vísu heimild til þess í lögum að gera flestar þær breyt., sem hér er farið fram á, án sérstakra laga frá Alþ., en hún hefur álitið heppilegra að fara þessa leið til þess að sameina þetta allt og koma því á starfhæfari grundvöll en það er nú á.

Það hefur verið rætt allmikið um skipun manna í þetta ráð og hafa heyrzt raddir um það, að heppilegast væri, að Alþ. skipaði 4. menn í ráðið, en sá 5. væri skipaður af stj. an tilnefningar. Þessa breyt. verður að telja algert nýmæli, því að Alþ. hefur ekki skipað slíkar n. fyrr. Ríkisstj. hefur lagt og leggur enn megináherzlu á það, að hún fái sjálf að skipa menn í þetta ráð án tilnefningar, því að það er sérstaklega áríðandi, að þessir menn eigi hægt með að starfa saman. Ríkisstj. er það líka ljóst, ef mistök verða á störfum ráðsins, meðan hún situr, þá mun það koma allt á hennar bak, og því sjálfsagt að hún megi ráða vali manna í ráðið. Ég hef svo ekkert meira um þetta að segja að sinni, en víl eindregið bera fram þá ósk fyrir hönd ríkisstj., að málið fái fulla afgreiðslu frá d. fyrir annað kvöld.