16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég gat ekki annað en verið undrandi á þeim umr., sem hér hafa farið fram, því að hér hafa margir hv. þm. ráðizt á allshn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu. Ég þarf varla að endurtaka það, að málið var athugað af n. vel og rækilega. — Það var sent til umsagnar landlæknis, einum hv. nm. var falið að afla sér upplýsinga um það utan funda, og síðan athugaði n. niðurstöður hans og að lokum hefur hún samkv. beiðni gefið út framhaldsnál. með bréfi frá landlækni. Á þessu sést, að málið var athugað gaumgæfilega, og því vísa ég öllum árásum á allshn. aftur heim til föðurhúsanna.

Hitt er annað mál, að menn geta verið ósammála um efni frv. í heild, en það er ósanngjarnt að segja, að n. hafi athugað frv. illa. En annað er það, að eins og hv. þm. Str. tók fram, þá sjá oft betur augu en auga, og rétt er að slá varnagla við ýmsu, sem mönnum þykir aflaga fara. Ýmsar þessar brtt. hér eru að mínum dómi óþarfar, en ég mun þó greiða sumum þeirra atkv. mitt.

Ég vil láta í ljós undrun mína á þeirri skoðun, sem fram hefur komið, að n. megi ekki hafa þessa skoðun á frv., úr því að landlæknir hefur aðra skoðun. Það eru oft einkenni opinberra skrifstofubákna, að þau þurfi að hafa á móti ýmsum nýjungum, af því að þær séu ekki frá þeim sjálfum runnar. Ég tel ekkert skjal fremur sanna, að þetta sé á rökum reist, heldur en bréf landlæknis um þetta mál og þá sérstaklega niðurlag næstsíðustu málsgr. Þar er um heilaspuna og fjarstæðu að ræða, og af hlífð við landlækni var rétt af allshn. að prenta þetta bréf ekki fyrr en í fulla hnefana.

Eins og hæstv. forseti þessarar hv. d. sagði í ræðu sinni í dag, þá viðurkennir landlæknir, að efni frv. sé sanngjarnt, enda þótt hann vilji ekki, að það verði að l. Þegar slík viðurkenning er fyrir hendi sem þessi, er sýnir, að niðurstaða landlæknis er algerlega röng, þá á Alþ. að hafa þrek til að breyta gegn því, sem embættismaðurinn leggur til, sá er forsendurnar telur réttar en af annarlegri ástæðu leggur gegn því, að rétta afleiðingar séu af henni dregnar. Ef Alþingi skortir þetta þrek, þá gætu embættismenn alveg eins stjórnað landinu, en það hefur ekki verið talið heppilegt.

Ég mæli því eindregið með þessu frv., en viðvíkjandi brtt. allsherjarnefndar og hv. 1. þm. Reykv. tel ég rétt að samþ. þær, en áður væri heppilegra, að allshn. fengi tíma til að athuga þær, en það yrði aðeins með því móti, að umr. yrði frestað og málið tekið út af dagskrá.