16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2956)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Þetta skal aðeins vera stutt aths. — Ég vil mótmæla því, sem fram kom í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að við, nokkrir þm., hefðum gert harðar árásir á allshn. Ummæli okkar gáfu eigi tilefni til að segja slíkt. Þar að auki hefur hv. n. sjálf flutt brtt., og er ég eigi að ásaka hana fyrir það, en ég furða mig á því, að hv. n. skuli ganga alveg fram hjá því, sem landlæknir leggur til, því að hann hefur meira vit á þessum málum en leikmenn yfirleitt. Það er og rangt, eins og hv. 6. þm. Reykv. hélt fram, að landlæknir færi ekki rök fyrir sínu máli, og mig grunar, að eitthvað annað liggi að baki því, að allshn. lét ekki prenta bréfið fyrr en hún var beðin þess.

Ég vil benda á, að brtt. sú, sem ég hef flutt, á mikinn rétt á sér, en hún er um, að sjúkraskýli og læknisbústaðir njóti þeirra réttinda, sem frv. fer fram á. Ég tel heppilegt, að hv. allshn. athugi þessar brtt., áður en málið verður afgreitt héðan úr hv. deild.