14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Ég tel, að með þessu frv. sé stefnt í rétta átt, og það beri að sameina öll þau verkefni, sem hér um ræðir, í hendur eins aðila. Ég álít, að það sé nauðsynlegt, að hver sú ríkisstj., sem ætlaði sér að gera eitthvað í dýrtíðarmálunum, hefði farið svipaða leið. En eins og gefur að skilja er engin trygging fyrir því í löggjöfinni, að þetta nái tilgangi sínum, heldur veltur þar vitanlega allt á framkvæmdinni. Með því að leggja öll þessi verkefni í hendur eins aðila, eru honum fengin geysimikil völd og þannig á það að vera.

Það er að mínu áliti eðlilegt, að ríkisstj. vilji sjálf skipa slíkt ráð. En ég ætlast einnig til þess, að ríkisstj. skilji sjónarmið Alþ. í þessum efnum, að það sé eðlilegt, að Alþ. vilji ekki gefa frá sér slíkt vald alveg blindandi.

Ef frv. verður samþ., eins og það liggur fyrir, er vald það, sem ráðið á að fá, afhent alveg blindandi.

En ef hluti af ráðinu væri skipaður eftir tilnefningu einhverra aðila utan þ., eins og t.d. ef Verzlunarráðið og S.Í.S. skipuðu sinn manninn hvort eða ríkisstj. eftir tilnefningu þeirra, þá tel ég, að ráðið gæti ekki orðið vel skipað.

Hæstv. ríkisstj. hefur óskað eftir góðu samstarfi við þingið, og ég hygg, að í þessu máli muni mjög áríðandi, að slíkt samstarf takist. Ég tel því eðlilegt, að ríkisstj. hafi samráð við Alþ. og flokkana um þetta ráð, og ef hún gæfi yfirlýsingu um, að hún vildi gera það, væri engin ástæða til þess að breyta þessu frv., og þá mun ég ekki bera fram neina brtt. En ef ríkisstjórnin vill enga slíka yfirlýsingu gefa og fer fram á, að Alþ. afhendi vald ráðsins alveg blindandi, þá mun ég bera fram brtt. shlj. þeirri, sem borin var fram í Nd. og ekki náði þar fram að ganga.