29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég mótmælti því ekki í ræðu minni, að rétt gæti verið að setja l. um það, á hvern hátt ríkissjóður styrki byggingar sjúkrahúsa. En ég held því fram, að það væri ekki víst né heldur fullrannsakað, að rétt væri, að það væri gert á þann hátt, sem í frv. segir. Og þar sem ég tel, að enginn nauður reki til þess að samþ. l. um þetta á þessu þingi, sérstaklega þegar búið er að samþ. styrkveitingu í fjárl. til nokkurra sjúkrahúsa á landinu, og mundi þá ekki skaði skeður, þó að afgreiðsla þessa máls dragist til loka ársins.

Ég vil líka benda hv. frsm. meiri hl. n. (ÁkJ) á það, jafnkunnugur og hann er sveitarstjórnarmálum, þar sem hann um skeið hefur verið bæjarstjóri, að hann veit gjörla, hversu oft standa stríðar deilur og harðar út af lögheimilisfestu manna, sem opinberan styrk þiggja. Og um þessar hörðu og löngu deilur, sem oft eru milli sveitarfélaga, ganga svo úrskurðir hjá sýslumönnum og bæjarfógetum, sem svo er oft loks vísað til æðri úrskurðar hjá stjórnarráðinu. Og búast mætti við, að slíkar deilur risu út af þessu atriði, ekki síður en út af framfærslustyrkjum og styrkjum til berklasjúklinga og styrkjum til sjúkra manna og örkumla.

Ég álít, þó að þetta mál sé flutt af einum hv. þm., þá hafi ekki legið því til grundvallar nægilegur undirbúningur og athugun. Og þar sem heilbrigðisstj. leggur gegn málinu á Alþ. eins og það liggur fyrir og þar sem ég get ekki séð, að nein hætta geti verið í því fólgin, þó að dregið verði nokkuð að setja l. um þetta efni, þá held ég mig við það, sem minni hl. n. leggur til í þessu efni.