08.12.1942
Neðri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

34. mál, húsaleiga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Á því er enginn vafi, að húsnæðismálin eru eitt af vandasömustu viðfangsefnum, sem upp hafa komið, síðan ófriðurinn skall á. Í mörgum bæjum og þorpum hefur gætt verulegra húsnæðisvandræða síðustu árin. Menn hafa orðið að búa við húsnæði, sem hefur mátt teljast mjög ófullkomið og stundum jafnvel hættulegt til íbúðar. Segja má, að fullkomið ófremdarástand hafi ríkt í þessum málum hér í Rvík, og hefur ekki fengizt á því nema lítil bát. Og á þessu hausti hefur ástandið versnað ,ið mun. Samkv. skýrslu um þetta munu 120 fjölskyldur hér í bæ hafa verið húsnæðislausar eða skort hæfilegt húsnæði. Það verður af líkum, hvílíkt tjón getur af þeim stafað, enda hafa berklalæknar þótzt sjá þess merki, að berklaveiki væri farin að aukast aftur, en hún hefur, eins og kunnugt er, verið í rénun undanfarin ár. Það var auðséð þegar á síðasta hausti, að húsnæðisskortur mundi verða tilfinnanlegur og hæstv. ríkisstj. mundi verða að gefa út brbl. Hún gaf út þessi brbl. 29. sept., eða einum degi fyrir flutningsdag í haust, og þau voru svo ófullkomin, að engar líkur gátu talizt til, að þau munda ráða nema litla bót á vandræðunum, enda hefur sú raunin orðið á. Í 1. gr. er aðeins gert ráð fyrir heimild til að taka leigunámi sumarbústaði í Gullbringu-, Kjósar-. og Árnessýslum, og í 2. gr. er heimild til að framkvæma útburð á þeim utanhéraðsmönnum, sem tekið hafa húsnæði á Ieigu án leyfis húsaleigun. Hins vegar er ekkert í l. þessum, sem heimilar hrepps- og bæjarstjórnum annars staðar á landinu að gera ráðstafanir til að sjá húsnæðislausu fólki fyrir húsaskjóli, til dæmis með því að kreppa að þeim, sem óþarflega mikið húsnæði hafa, eða taka leigunámi húsnæði, sem er lítt notað eða ónotað með öllu. Ég hef til dæmis talið alveg sérstaklega ástæðu til að taka húsnæði, sem haldið er lausu í „spekulations“-skyni, sem oft vill verða.

Nú játa ég, að það er neyðarúrræði að þurfa að skammta húsnæði, því að oft er erfitt að framfylgja slíku af réttlæti. En í þessum málum ríkir neyðarástand. Það er slæmt að þurfa að grípa til slíkra aðferða til að treta úr ófremdarástandinu. sem á að miklu leyti rót sína að rekja til vanrækslu valdhafanna, því að eðlilegasta aðferðin hefði verið að koma í veg fyrir vandræðin, eins og eðlilegasta aðferðin í heilbrigðismálum er sú að hindra sjúkdómana í stað þess að lækna þá. En þó verður nú að gera eitthvað í málinu og hindra þá, að þetta ástand geti skapazt aftur, um leið og bætt er úr vandræðaástandi, sem þegar er skapað. Alþfl. mun bera fram till. í þessu máli nú á þessu þingi. Hann hefur, eins og kunnugt er, gengizt fyrir því, að komið yrði upp verkamannabústöðum. Eins og nú er ástatt, eru að vísu miklir örðugleikar á því að halda þessu starfi áfram. En þeim örðugleikum mætti að nokkru leyti ryðja úr vegi með því að skapa betri skilyrði til nýbygginga í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Eitt af því, sem nauðsynlegt væri að gera í því sambandi, er að lækka vexti af lánum til bygginga. Og ríkisvaldið yrði jafnframt að greiða fyrir innflutningi efnis til verkamannabústaða og láta þá sitja fyrir öðrum byggingum, sem minni þörf er á. Þetta er sú hlið málsins, sem ekki má gleymast. En þó er víst óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess, að húsnæði, sem til er á hverjum tíma, komi þeim að notum, sem hafa þess mesta þörf. Alþfl. mun því verða fús til samstarfs við alla flokka í þessu efni, jafnframt því, að hann leggur fram frv. það, sem útbýtt verður hér í dag, þar sem gert er ráð fyrir allmiklu víðtækari ráðstöfunum en þeim, sem þetta stjfrv. gerir ráð fyrir.