08.12.1942
Neðri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

34. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Þó að hæstv. ríkisstj. hafi eflaust borið fram frv. þetta í góðum tilgangi, er ekki þess að dyljast, að þar kennir nokkurs einstrengingsháttar. Aðalatriði frv. er. að taka megi leigunámi sumarbústaði í nágrenni Rvíkur og bera út utanhéraðsmenn, sem fengið hafa húsnæði í bænum. Má segja, að nú sé farið að gera nokkuð svo upp á milli fólks í þessu þjóðfélagi. Þetta er alveg í samræmi við það, að hæstv. stj. setti l., sem heimiluðu leigunám á húsnæði í sveitum landsins handa Reykvíkingum. Jafnframt því, að slík l. eru sett, er þess svo krafizt, að bera megi út utanhéraðsmenn, sem fengið hafa inni í Rvík. Ég skil ekki þennan hugsunarhátt. Sjá menn ekki, að þetta er stórhættuleg löggjöf og verkar eins á aðsóknina til Rvíkur og þegar sett eru ákvæði um, að utanbæjarmenn megi ekki fá hér vinnu. Það sér hver heilvita maður, að þetta hlýtur að hafa þær afleiðingar, að menn, sem hingað eru komnir utan af landi, reyna að fá sér hér lögheimili, þótt það hafi ekki verið ætlun þeirra í upphafi. Ég veit nokkur dæmi slíks. Það verður svo í reynd til að auka á húsnæðisvandræðin. Þetta er bæði leiður hugsunarháttur, þar sem verið er að gera upp á milli borgaranna, og auk þess hættulegur, þar sem þetta miðast að því að auka innstreymi til bæjarins. Ef bæta á úr húsnæðisvandræðunum, er til sú leið að skammta húsnæðið. Virðist ekki ástæða til þess á erfiðleikatímum, að þeir, sem hafa efni á að koma sér upp húsum, búi á tveim eða þrem hæðum í 10 eða 15 herbergjum, á meðan aðrir, sem ekki hafa efni á slíku, eru bornir út úr lélegum íbúðum. Yfirleitt verð ég að telja þetta frv. eitt af líklegustu löggjafarplöggum, sem ég hef séð lengi.