08.12.1942
Neðri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

34. mál, húsaleiga

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég hef í rauninni ekki margt um þetta frv. að segja. Reynslan hefur sýnt, að það er í alla staði ófullkomið, því að það leysir engan veginn úr þörf þeirri, sem fyrir er. Í skýrslu, sem húsnæðisn. Rvíkur sendi bæjarráði nýlega, segir, að 120 húsnæðislausar fjölskyldur hafi leitað til bæjarins og farið fram á, að hann útvegaði þeim húsnæði. Þar við bætist allmargt fólk, sem hefur fengið þá úrlausn, að það var flutt upp að Korpúlfsstöðum, en sú úrlausn — getur ekki talizt hagkvæm fyrir menn, sem vinna hér í bænum. Aðrir hafa verið fluttir í sumarbústaði, þar sem gólfflötur er 25 fermetrar að stærð, því að hann má ekki vera meiri, og eftir því er annað þar. Ýmsir þeirra. sem teljast hafa fengið úrlausn, hafa hlotið slíkt húsnæði, að heilsa þeirra er í veði. Og meðal þeirra fjölskyldna, sem enga úrlausn hafa fengið, eru 50, sem eru alveg á götunni. Sjö þeirra hafa verið fluttar í búningsklefana suður á Íþróttavelli, þar er svo ástatt, að bárujárn er slegið utan á trégrind og veggir ótroðnir. Ef þetta er ekki ófremdarástand, veit ég ekki, hvað á að heita því nafni. Þess verður að krefjast af þingi og stj., að gripið verði til róttækra ráðstafana til þess að bæta úr þessu ástandi. Og leiðin er nú, eins og ástatt er, aðeins ein: Að skammta húsnæðið í bænum. Öðruvísi verður ekki ráðin bót á vandræðunum nógu fljótt. Þess vegna höfum við þrír þm. Sósfl. lagt fram frv., þar sem gert er ráð fyrir, að þessi leið verði farin til bráðabirgða. Frv. er að vísu ekki prentað enn þá, en verður væntanlega útbýtt á morgun. Það gleður mig, að hv. 4. þm. Reykv. hefur lýst yfir því fyrir hönd Alþfl., að hann sé reiðubúinn til samstarfs við alla flokka í þessu máli. Vænti ég þess, að skjót lausn geti fengizt með slíku samstarfi. Um hitt er ég hv. 4. þm. Reykv. sammála, að hér er aðeins um bráðabirgðaúrlausn og neyðarúrræði að ræða. Aðalatriðið er að reisa seinna góðar íbúðir á félagslegum grundvelli, það er framtíðarlausn málsins. Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en vænti þess aðeins, að till. okkar komi sem fyrst fyrir.