24.03.1943
Neðri deild: 82. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2992)

125. mál, verndun barna og ungmenna

Áki Jakobsson:

Ég flyt hér brtt. á þskj. 582. sem ég tók aftur við 2. umr. Þessar breyt. miða í fyrsta lagi að því að takmarka valdsvið ungmennadóms við það, að hann dæmi aðeins afbrot barna og ungmenna, eða taka algerlega undan hans ákvörðunarrétti það eftirlit með meðferð ungmenna, sem honum er veitt með þessu frv. Að vísu er búið með breyt. að lækka nokkuð aldur þeirra ungmenna, sem ungmennadómur getur haft íhlutunarrétt um, og ég álít nokkuð til bóta. En samt sem áður er ég þeirrar skoðunar, að það sé mjög vafasamt, hvort rétt sé, að ungmennadómurinn hafi það vald, sem honum er veitt í frv. Ákvæðin um þetta eru í 7. kafla frv., en mér þykir orðalagið dálítið hæpið, þar sem segir: „Nú hefur barn yfir 15 ára framið lögbrot, eða ungmenni 16–18 ára er haldið annmarka, sem getur í 29. gr. þessara laga, en aðgerðir barnaverndarn. samkvæmt 12. gr. koma ekki að haldi eða eiga ekki við, og skal þá ungmennadómur taka málið til rannsóknar og úrskurðar“. Þarna er gert ráð fyrir því, að ungmennadómurinn geti tekið ungmenni, sem eru siðferðilega eða líkamlega „miður sín“ eins og það er orðað í l., undir sína umsjá, og farið með þau á svipaðan eða sama hátt eins og unglinga, sem framið hafa afbrot, svo sem þjófnað eða önnur slík brot. Þetta orðalag er svo óákveðið, að það getur hæglega valdið misskilningi, þar sem skoðanir manna eru mjög mismunandi á þessum málum. Ég held, að valdhafarnir, sem þarna er um að ræða, héraðsdómararnir og þeir, sem kynnu að vera skipaðir við hlið þeirra, séu alls ekki til þess fallnir að hafa siðferðilegt eftirlit með ungmennum. Ég álít, að slíkt eftirlit eigi að vera óskipt í höndum barnaverndarn. og Barnaverndarráðs og þeim aðilum ætti að vera kleift að vinna þessi störf, ef settar væru á stofn uppeldisstofnanir, svo sem barnahæli eða ungmennahæli, til þess að hægt væri að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessum efnum. Ég álít, að það sé afar varhugavert að taka þessi ungmenni, sem lent hafa á glapstigum, svo sem stúlkur, sem komizt hafa í kynni við hið erlenda setulið, og fara með þau eins og hverjar aðrar óbótamanneskjur. Ég er á þeirri skoðun, að það sé ekki síður skemmd á þessum ungmennum að láta taka þau og fara með þau eins og afbrotamenn heldur en það, þó að þau yrðu látin eiga sig. Barnaverndarráð hefur hins vegar í aðalskjali sínu til allshn. út af þessu máli látið það í ljós, að það telji varhugavert að afhenda þessi mál í hendur ungmennadóms. Ég hirði ekki að nefna einstök dæmi, en form. Barnaverndarráðs skýrði frá einstökum dæmum þess, hvernig ungmennadómi væru mislagðar hendur með það að meðhöndla þessi málefni. Það má vara sig á því að fá þessi málefni í hendur mönnum, sem eru meira og minna bundnir af siðferðilegum kreddum. Í frv. er lögð áherzla á það, að það verði farið með þessi mál með svo mikilli leynd sem hægt er, til þess að bletta ekki viðkomandi ungmenni. Slík leynd gæti þó haft nokkra hættu í för með sér, ef hún leiddi til þess, að úrskurðir þessarar stofnunar yrðu ekki eins undir opinberu eftirliti eins og annars, þ.e.a.s. undir eftirliti almenningsálitsins. Þó tel ég ekki rétt að svipta burtu þessari leynd, þar sem það hefur komið fyrir, að ungmennadómur hefur fjallað um mál ungmenna, sem ekki hafa framið afbrot, heldur hafa komizt á siðferðilega glapstigu. Barnaverndarráð vildi ekki gera um þetta brtt., en tók það fram við n., að það teldi þessi ákvæði varhugaverð, og taldi athugandi, hvort ekki væri rétt að takmarka valdsvið ungmennadóms. Ég held, að það sé ekki rétt af okkur að fela ungmennadómi þetta vald, ef það er engin trygging fyrir því, að hann geti gert annað en það, sem eðlilegt er, að barnaverndarn. hafi með höndum. Ég sé engin rök fyrir því, að barnaverndarn. séu óhæfar til þess að hafa þessi mál með höndum, ef þeim eru látin í té hæli eða uppeldisstofnanir, sem þær þurfa á að halda til þess að geta leyst þessi störf af hendi. Barnaverndarn. geta, ef þær þurfa á að halda, fengið lögreguvald til þess að beita þvingun. En þessi n. er skipuð fólki, sem eingöngu hefur fengizt við barnauppeldi, og þekkir hún því börn og unglinga miklu betur heldur en á sér stað um ungmennadóm. Það er varhugavert að grípa inn í persónuleg réttindi þessara ungmenna, þegar engin trygging er fyrir því, að sú valdbeiting, sem ungmennadómur kann að hafa í frammi, beri tilætlaðan árangur, og jafnvel að valdbeiting gæti haft öfug áhrif við það, sem ætlað var. Flestar brtt. minar ganga inn á það að takmarka þetta vald og sameina það hjá barnaverndarn. Það er nú svo hér í Rvík, að allt eftirlit með ungum stúlkum í sambandi við setuliðið er komið í hendur ungmennadóms, og barnaverndarn. er farin að telja þetta utan við sitt verksvið. Enda er ekki eðlilegt, að barnaverndarn. vilji þarna vera sem nokkurs konar uppljóstrunarverkfæri. Eitt að þeim ákvæðum, sem allshn. lagði niður, var það, að lögð væri skylda á barnaverndarn. til þess að gefa upplýsingar varðandi ungmenni, sem komin væru á glapstigu. Þetta sýnir bezt, að samstarf ungmennadóms og barnaverndarn. verður ekki fólgið í öðru heldur en uppljóstrunarskyldu af hálfu barnaverndarn. Ef farið væri inn á þá braut, gæti barnaverndarn. ekki lengur haft samstarf við ungmenni, sem komizt hafa á glapstigu, sem leiðbeinandi, eins og verið hefur. Ég held þess vegna, að þessi skipting, sem gert er ráð fyrir í frv., þ.e., að eftirlit með ungmennum sé tekið úr höndum barnaverndarn. og fært yfir til ungmennadóms, sé ekki rétta leiðin í þessum efnum. Ég held, að það sé rétta lausnin, að barnaverndarn. og Barnaverndarráð hafi með höndum allt það, er við kemur siðferðilegu eftirliti með slíkum ungmennum. Önnur höfuðbreytingin, sem í brtt. mínum felst, er sú, að barnaverndarn. sé rétt að semja um greiðslu fyrir börn og ungmenni, sem ráðstafað er samkvæmt lögunum gegn meðlagi, og er þá viðkomandi bæjar- og sveitarsjóður skuldbundinn til greiðslunnar. Eins og nú er, verður barnaverndarn. að vera upp á það komin, að framfærslun. samþykki þær meðlagsgreiðslur, sem þarna er um að ræða. Í framkvæmdinni verður þetta þannig, að barnaverndarn. getur alls ekki komið við neinum almennum taxta, sérstaklega er þetta erfitt við að eiga á meðan hún hefur ekki yfir neinni uppeldisstofnun að ráða, þar sem hún gæti komið börnunum fyrir. Ég vil sérstaklega taka það fram, að hér er ekki um það að ræða, að barnaverndarn. fái vald til þess að ákveða meðlag með öllum börnum. Þetta gildir aðeins um börn, sem einhverra hluta vegna eru undir umsjá barnaverndarn. og hún er að reyna að koma fyrir og hjálpa, og þau takmörk eru sett, að hún má aldrei ákveða meðlagsgreiðslu fyrir lengri tíma en 6 mánuði. Þessi till. er tekin eftir till. Barnaverndarráðs. Það vildi, að þessi breyt. yrði sett í l., og taldi starf barnaverndar n. nauðsynlegt til þess að þetta kæmi að notum. Ég gerði hins vegar ekki annað en að taka upp þessa till. Barnaverndarráðs með dálítilli orðabreyt. Ég vil nú fara nokkrum orðum um einstakar brtt., sérstaklega ef einhverri þeirra er þannig háttað, að hún fellur ekki alveg undir þessi 2 höfuðatriði, sem ég hef getið um. — Í 29. gr. 4. málsgr. kemur greinilega þessi samvinna á milli barnaverndarn. og ungmennadóms, sem gert er ráð fyrir í frv. stj., og það er jafnvel gert ráð fyrir því, að barnaverndarn. verði sett hjá og hafi lítið með þessi mál að gera. Í 4. málsgr. 29. gr. segir svo: „Nú verður barn 16 ára á heimili, hæli eða uppeldisstofnun, þar sem barnaverndarn. hefur komið því fyrir, og skal þá sú ákvörðun barnaverndarn. haldast, nema ungmennadómur ákveði annað“. Eftir að barnaverndarn. er búin að ákveða að sleppa ungmenni úr haldi, getur ungmennadómur úrskurðað, að það skuli áfram sitja í þvingun, án þess að ungmennadómur þurfi að taka tillit til þess, hvað barnaverndarn. álítur rétt að gera í því efni. Þetta álít ég alveg ótækt, og legg ég því til, að orðin „nema ungmennadómur ákveði annað“ falli niður, en í staðinn komi: „þar til hún ákveður annað“. Enn fremur hef ég lagt til, að 3. málsgr. 32. gr. falli niður og er það í samræmi við hina síðartöldu brtt. Þá er brtt. við 38. gr., sem nú er 37. gr. Fyrri breyt. er sú, að í stað orðanna: „Barnaverndarráð og ungmennadómur“ í 1. málslið komi: „eða Barnaverndarráð“. Síðari breyt. við þessa gr. er, að á eftir orðinu „glapstigum“ í 2. málsl. komi: „og önnur börn, sem skyndilega þarf að ráðstafa um stuttan tíma“. Fyrri brtt. er alveg samhljóða öðrum brtt. um að fella niður ungmennadóminn. Hin síðari fer í þá átt, að auk þess, að í Rvík skuli barnaverndarn. séð fyrir athugunarstöð, þar sem hægt væri að koma börnum fyrir á meðan verið er að ráðstafa þeim á annan hátt, þá verði séð fyrir því sama víðar á landinu, einkum í kaupstöðum. Þá er næst brtt. við 39. gr., þar sem talað er á sama hátt um þetta valdsvið ungmennadóms. Brtt. við 40. gr. veitir barnaverndarn. rétt til þess að semja um greiðslu fyrir börn og ungmenni, sem ráðstafað er samkv. l., eins og ég hef drepið á. Höfuðbreyt. er svo við 7. kafla, eins og ég hef áður lýst.

Þá legg ég til, að 63. og 64. gr. falli niður. Þar er ákveðið að veita ungmennadómi meira vald en barnaverndarn. og Barnaverndarráði, sem er mjög óheppilegt, eins og ég hef áður skýrt. Ég held því, að það sé til bóta að fella þessar gr. niður.

Ég vil að lokum geta þess, að ég tel rétt að setja nokkru strangari ákvæði um eftirlit með störfum barnaverndarn., einkum með tilliti til hins óvenjulega ástands og vegna þess að valdsvið þeirra er i rauninni mjög aukið, en það hafði áður verið skert með lagabreyt., og álít ég, að þegar það nú er aukið á ný, sé full ástæða til að skipta sér af því, hvernig þær rækja störf sín, og auka það eftirlit, sem hið opinbera hefur með starfsemi barnaverndarn. Það komst ekki svo langt í allshn., að farið væri inn á þetta, vegna þess að n., eða meiri hl. hennar, gat ekki orðið á eitt sáttur um þetta, en ég álít, að það eigi að vera til athugunar, hve aukna eftirlitsskyldu hið opinbera þarf að taka á sig vegna aukinna verkefna barnaverndarn.

Ég var meðflm. að þeim mörgu brtt., sem hér komu fram við 2. umr. þessa máls, og álít allar breyt. til stórkostlegra bóta. Frv. þetta er meira samið af mönnum, sem sitja inni á skrifstofustólum, en af þeim, sem umgangast fólkið sjálft og skilja það. Þessir menn eiga erfitt með að setja sig inn í hugsanagang almennings, og sérstaklega það óeðlilega viðhorf, sem skapast af samneyti ungra stúlkna við setuliðið. Það má vara sig á því, að í þessu efni getur vel farið svo, að verr sé farið en heima setið, og ekki varlegt að gera viðtækar breyt., nema skipt sé um til hins betra. Ég held, að þetta hafi átt að fela þeim mönnum, sem hafa tök á að vera með því fólki, sem l. eru líkleg til að ná til, en ekki mönnum, sem ekki þekkja lífið eins og það er og eru auk þess bundnir af kreddum, sem gætu orðið þess valdandi, að það, sem gert er, væri til hins verra. Ég álít, að frv. eins og það kom frá stj. sé ágætt dæmi um það, hvernig skrifstofumennska (bureaukrati) getur farið með mál og hvernig skrifstofumönnum geta orðið mislagðar hendur um að talta skynsamlega á málunum, og þær stórfelldu breyt., sem allshn. gerði á frv. og Nd. samþykkti allar með tölu, gætu orðið nokkur aðvörun um það, að vafamál sé að láta slíkt í hendur manna, sem vantar víðsýni, eins og á sér stað um marga embættismenn.