23.02.1943
Efri deild: 61. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3000)

141. mál, rannsókn skattamála

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. — Eins og kunnugt er, þá er í 11. gr. l. nr. 20 frá 20. maí 1942 ákvæði um, að skipa megi mann með dómsvaldi til að rannsaka skattamál.

Gera má ráð fyrir því, að ekki komi öll kurl til grafar í sambandi við framtal eigna og tekna til skatts. Er því nauðsynlegt að skipa mann með dómsvaldi til þess að rannsaka skattamál, og er að þessu leyti haldið sömu reglum í frv. því, sem hér liggur fyrir, og í 11. gr. l. nr. 20 1942.

Trauðla er við því að búast, að einn maður komist yfir alla rannsókn þessara mála, og er því í frv. þessu lagt til, að landinu sé skipt í fjögur rannsóknarumdæmi, og er málið falið hv. Alþ. til úrlausnar.

Nýmæli er það, að heimilt skal vera að skipa tvo eða þrjá rannsóknardómara í umdæmi því, sem Rvík er í. Þetta er heimild, sem notuð yrði, ef í ljós kæmi, að einum manni væri ofvaxið að rækja starfið vel. Ætla má, að ágreiningur verði um lausn slíks máls sem þetta er. En bezt væri það fyrir landið, ef tækist að leysa það á hagkvæman hátt.

Ég ætla, að þetta frv. eigi fremur að fara til allshn. en fjhn.