23.02.1943
Efri deild: 61. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

141. mál, rannsókn skattamála

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég er að því leyti sammála hæstv. dómsmrh., að rétt sé að setja sérstök lagafyrirmæli í þessu efni. Ef rétt væri fram talið, væri þessa samt ekki eins mikið þörf og af er látið.

Nú hefur verið komið á bókhaldsskyldu alls staðar, og flest hlutafélög eru undir eftirliti endurskoðenda frá hinu opinbera. Reikningar þeirra eru því endurskoðaðir þannig frá ári til árs, og ætti því að vera auðséð, hvort eignir þeirra aukast eða ekki. En ætlunin er að fara enn víðtækara út í málið. Rauði þráðurinn er sá, að skattþegninn hefur engan rétt, en ríkið allan. Ég get ekki gengið inn á þetta, ef jafnrétti á að ríkja. Ríkið hefur sína umboðsmenn alls staðar, en réttur skattþegnsins er engan veginn tryggður. Hér á skattgjaldandi engan mann, sem á að gæta hans hagsmuna í þessari stofnun, sem á að hafa úrskurðarvald, og má það kalla undarlegt fyrirkomulag. Einn maður í þessari n. á að vera formaður, annar á að hafa þekkingu á landbúnaði og sá þriðji á sjávarútvegi og viðskiptum, en enginn á að vera lögfræðingur. Síðan er komið með frv. um það, að settir séu lögfróðir menn, sem eigi að rannsaka skattamál, sem svo eiga að fara til úrskurðar í n., sem ekki hefur neitt vit á bessum málum.

Mér virðist því athugandi, hvort ekki sé rétt að breyta öllu þessu kerfi yfirleitt, úr því að farið er af stað á annað borð.

Nú vil ég skýra frá því, að það kemur svo að segja daglega fyrir, að menn, sem kæra útsvör sín, fá ekki leyfi til að bera hönd fyrir höfuð sér á nokkurn hátt annan en þann að skrifa kæru, sem kannske er alls ekki lesin. Þeir fá svo þann úrskurð, að kæran sé ekki tekin til greina, en engar forsendur eða ástæður færðar fram fyrir þeirri niðurstöðu. Svo senda þessir menn kærur sínar til seinasta dómstólsins í þessum málum, ríkisskattan. Ég hef, því miður, séð dóma um slíkar kærur frá þeirri n. á þá leið, að vegna ónógra upplýsinga væri kæran ekki tekin til greina, en sú hv. n. hafði ekki gert sér það ómak að biðja um þær upplýsingar. Og kærandi hafði þó í slíku tilfelli, sem ég þekki, beðið skriflega um það að fá að verja sitt mál fyrir ríkisskattan. Þegar svo viðkomandi menn ætluðu í mál við ríkisskattan. út af þessu, þá kallaði hún þá á sinn fund og viðurkenndi þar, að dómurinn hefði farið allt öðruvísi, ef n. hefði haft þær upplýsingar strax, sem hún fékk á þeim fundi, en því miður gæti hún ekki breytt dómsniðurstöðunni, af því að hún væri búin að gefa dóminn út. Í slíkum tilfellum er oft deilt um tugi og hundruð þús. kr. og jafnvel milljónir. Og þarna hefur gjaldandi engan til þess að gæta sinna hagsmuna. Ríkisskattan. stendur á mjög völtum fæti til þess að fella dóma í kærumálum, en er þó síðasti dómstóll í þessum málum.

Ég vil mjög beina því máli mínu til þeirrar n., sem um þetta mál fjallar, hvort ekki sé rétt að taka málið upp á nýjum grundvelli með því að samræma meira en enn hefur verið rannsókn í skattamálum og dóma í skattamálum, þannig að skattþegnar geti varið mál sín fyrir lægsta dómstóli í skattamálum og síðan fyrir öðrum dómstólnum og þeim þriðja, eins og önnur mál almennt má verja fyrir dómstólum. En ég tel mjög óviðeigandi af hæstv. ríkisstj. og opinberri stj. yfirleitt, að meðhöndla þannig þegna sína, að þeir hafi engan rétti sínum skattamálum, eins og þeir þó hafa í öllum öðrum málum í landinu.

Ég mun svo ekki fara mjög langt út í frv. sjálft, en vil þó aðeins minnast á, að mér þykir dálítið einkennilegt hér, að í 1. gr. frv. stendur, að 2 eða 3 rannsóknardómarar megi vera í umdæmi því, sem Rvík er í, og að þeir þurfi ekki allir að vera löglærðir. Mér finnst einkennilegt, að þegar menn eiga að rannsaka í málum eins og hér er talað um, þá þurfi þeir ekki allir að vera löglærðir. því að ég læt mér ekki detta í hug, að fyrir ríkisstj. vaki, að hér sé verið að setja á fót einhverja þefarastofnun. Þess vegna tel ég, að ef á annað borð á að setja hér upp rannsóknardómara, og þá 2 eða 3 fyrir Rvík, þá hljóti það að þurfa að vera menn með lögfræðiþekkingu, sem hafa fullkomið dómsvald. Svo má mikið um það deila, hvort ekki er óþörf útgjaldabyrði lögð á ríkissjóðinn með því að set ja þessa rannsóknardómara upp úti í fjórðungunum, sem Rvík er ekki í, þar sem sýslumenn og bæjarfógetar virðast geta rannsakað þessi mál eins og öll önnur svipuð mál. En það er mál út af fyrir sig.

Mun ég svo ekki ræða málið frekar fyrr en ég sé, hvernig það kemur frá þeirri hv. n., sem mun hafa með það að gera.