14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Haraldur Guðmundsson:

Það er alveg rétt, að stj. ber ábyrgð gagnvart Alþ. og framkvæmd l., sem Alþ. setur. En þess er aðgætandi, að enda þótt stj. sé til orðin með sérstökum hætti, hlýtur Alþ. að sjálfsögðu að bera ábyrgð á þeirri lagasetningu, sem það setur og felur stj. að framkvæma. Hæstv. fjmrh. upplýsti, að stj. mundi ekki leita tilnefningar neins aðila utan þ., og ber þá væntanlega að skilja þetta svo, að þannig verði það í framkvæmdinni, en ekki aðeins að forminu til.