12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (3030)

152. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér fannst um það vanta upplýsingar hjá hæstv. félmrh., hve stóran útgjaldalið hér væri um að ræða fyrir ríkissjóð, og saknaði ég þess, að þessar upplýsingar skyldu aldrei koma fram í ræðu hans. — Eins og gert er ráð fyrir í frv., að þetta gjald skiptist milli launþega og laungreiðenda og laungreiðandi á að greiða 6% af þessu gjaldi, þ.e.a.s. iðgjaldinu, en launþeginn 4%, þá sér það hver maður, að hér er um þó nokkuð stóra upphæð að ræða, sem ríkinu er ætlað að greiða. Mér hefði sem sagt þótt viðfelldnara og æskilegra, að fylgt hefði áætlun um, hve stóra upphæð ríkissjóður þyrfti að greiða, ef frv. þetta verður að lögum.

Þó er ég ekki á neinn hátt með þessu að gefa til kynna, að ég sé á móti stefnu þeirri, sem fram kemur í frv., nema þá að síður sé.

Mér skilst, að með frv. þessu sé verið að fara fram á 6% kauphækkun fyrir starfsmenn ríkisins, því að það kemur nokkuð út á eitt, hvort borgað er út í peningum eða í þeim fríðindum, sem frv. þetta fer fram á.

En ég vil leyfa mér að benda á það, að hér er verið að marka stefnu, sem á eftir að grípa viða um sig. Því að strax og þetta er orðið að l., munu þær stéttir, sem l. ná ekki til, ekki sætta sig við að njóta ekki þeirra sömu kjara og stéttarfélagar þeirra, er vinna hjá ríkinu, fá. Enda er ekki sanngirni í því, að þeir, sem vinna t.d. í Landssmiðjunni, fái að njóta þessara fríðinda, en aðrir, sem vinna hliðstæða vinnu, verði þar ekki með. Því má alveg ganga að því vísu, að um leið og þessi 6% greiðsla ríkisins af iðgjöldum starfsmanna hins opinbera verður samþ., þá verður hafin sókn stéttarfélaganna um, að allir launamenn í landinu fái þessi sömu kjör. Ég er ekki að segja þetta til þess að hafa á móti þeim ráðstöfunum, sem í frv. felast, heldur til þess að benda á, að þannig mun afleiðingin af þeim verða. — Ég vil aðeins beina þeirri fyrirspurn til hv. 3. landsk., hvort þetta sé ekki rétt hjá mér, að stéttarfélögin muni koma á eftir og krefjast sömu kjara fyrir alla meðlimi sína. Ég segi fyrir mig, að mér fyndist allt annað ranglæti.

Þá kemur og til álita, hvort þetta frv. kemur ekki í bág við þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið að sér að framfylgja, þ.e.a.s. að reyna að lækka dýrtíðina í landinu. Það er m.a. með l. ákveðið, að ekki megi hækka skipaviðgerðir og annað við iðnað. Með þessari aths. vil ég benda á, að það verður að hafa opin augu fyrir því, að þær kvaðir, sem lagðar eru á atvinnufyrirtækin, geti rúmazt innan þess ramma, sem þeim er afmarkaður með ákvæðum um verðlag á þeim vörum og á því verki, sem þessi atvinnufyrirtæki inna af höndum.

Ég er annars alveg sammála hæstv. ráðh., að hér er farið inn á nauðsynlega braut, og spursmál er, hvort ekki á að setja þessi mál öll undir einn hatt, en það hefur nú verið rætt áður í sambandi við ellitryggingal. Það er áreiðanlega vert að athuga, hvort ekki sé rétt að stíga sporið til fulls og hafa lögákveðnar tryggingar fyrir alla þegna þjóðfélagsins. Það mun reynast ósk allra að fá þær kjarabætur, sem í frv. felast, ef það verður að l., og ég sé enga ástæðu til að mæla á móti því, að látið verði að óskum launastéttanna í þessu efni, og þær munu og sjálfsagt fá þær og allir þegnar þjóðfélagsins verða þeirra aðnjótandi, nema ef ske kynni, að vesalings sveitafólkið ætti erfitt með að ná rétti sínum, er alltaf virðist hér vera haft útundan.