12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

152. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti. — Ég skal aðeins svara fáeinum orðum vegna þeirra ummæla, er nú hafa verið viðhöfð í sambandi við frv. þetta, þó að ég sjái hins vegar ekki ástæðu til að vera að fjölyrða um það nú við 1. umr. Varðandi kostnað þann, er af þessu frv. kynni að leiða, get ég vísað hv. þm. Barð. á þær upplýsingar, sem eru í grg., bls. 8, en þar eru svör við þeim fyrirspurnum, sem hann bar fram.

Þessar framkvæmdir kosta nokkuð aukin útgjöld fyrir ríkið. Hins vegar ber að líta á nauðsyn þess að koma þessum málum í gott horf. Með þessu frv. er ætlazt til, að lífeyrismálið komist á réttan kjöl og takast megi að ná föstum fjárhagslegum grundvelli.

Geri ég ráð fyrir, að úr sjóði þessum verði ekki einungis úthlutað fé til þeirra, sem laun taka samkv. launalögum. Við bætist stór hópur annarra starfsmanna, og er ætlunin að koma þeirri leiðréttingu á með þessu frv.

Væntanlega verður þetta frv. til þess að setja endurskoðun launalaganna af stað. Vitað er, að um samkeppni er að ræða milli þess opinbera og einstaklinga. Einstaklingsfyrirtæki mörg hafa lífeyrissjóð fyrir starfslið sitt og hafa keppt við ríkið á þennan hátt og með betri launakjörum. Álít ég ekki nema rétt, að ríkið geri líkt við sína starfsmenn og einstaklingsfyrirtækin og það eigi að búa svo að þeim, að það geti haldið þeim í sinni þjónustu.