04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

21. mál, virkjun Andakílsár

Sigurður Thoroddsen:

Hv. 1. þm. Árn. benti á það hér í gær í sambandi við málið um virkjun Laxár, að athuga bæri, hvernig sú virkjun kæmi heim við heildarskipulag raforkumála. Hann minntist á þá mþn., sem skipuð var á síðasta þingi til að athuga þessi mál, en mun enn sem komið er vera skammt á veg komin með sitt starf. Þó gat hann þess, að n. hefði helzt komið til hugar sú leið, sem farin er í Englandi og viðar, að tengja mestu raforkuverin með háspennulínu, þ.e. að tengja Laxárvirkjunina við Sogsvirkjunina. Það verður auðvitað ekki gert í náinni framtíð og kostar vafalaust hundruð milljóna, og væri auðvitað óhjákvæmilegt, að ríkið ætti slíkar línur. Hins vegar gat hann þess, að í hvert skipti, sem ráðast ætti i nýja virkjun, þyrfti að athuga, hvort hún kæmi ekki í bága við þetta framtíðarskipulag og gæti gengið sem hluti inn í þá heild. Virkjun Laxár er þannig, að hún hlýtur að verða einn liður í þessu skipulagi, en aftur á móti gæti þessi virkjun orðið til að tefja fyrir þessu framtíðarskipulagi með því að tefja fyrir línubyggingu út frá Sogsvirkjuninni. Upphæð sú, sem hér er um að ræða, er svo mikil, að mönnum hlýtur að detta í hug að óathuguðu máli, hvort ekki væri hægt fyrir hana að byggja línu frá Soginu til Borgarfjarðar. Að vísu er það fullyrt í grg., og eins tók hv. flm. það fram í ræðu sinni, að það þyki sýnt, að háspennulína frá Sogi geti ekki borið sig. Mér finnst þó ekki nægileg grein gerð fyrir þessu og nægilegan samanburð skorta á þessu tvennu. Þess þarf einnig að gæta, ef farið er út í virkjun Andakílsár, að þeirri virkjun verði hagað á þann hátt, að hægt verði síðar að fullvirk ja Skorradalsvatn, svo að takast megi að nota þá miklu miðlunarmöguleika, sem til eru í því vatni, jafnvel í sambandi við Sogsvirkjunina, þannig að miðlunin í Skorradalsvatni verði notuð til þess að fullnægja mesta álagi. Ég vil aðeins benda hv. fjhn. á þetta, án þess að ég vilji að svo komnu máli á nokkurn hárt draga úr, að þetta mál nái fram að ganga.