04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

21. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég vildi hafa gert svo skýra grein fyrir þessu sjónarmiði í ræðu minni, sem hv. 11. landsk. minntist á, að það gæti á engan hátt komið í bága við, að þessi virkjun færi fram, enda féllu orð hans engan veginn á þann hátt, að hann vildi gera lítið úr, að þetta gæti verið rétt.

Ég held, að ég hafi ekki farið inn á það áður, sem getið er um í grg., að það er þegar búið að gera samanburð á því að virkja 2400 hestöfl í Andakílsá og leiða tilsvarandi rafmagn frá Soginu. Sá samanburður sýndi, að ekki hefðu verið eftir tekjur til að kaupa nema rúman helming af þeirri orku, sem þurft hefði frá Soginu, því að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um rekstur Sogsstöðvarinnar, þá hefði þessi orka kostað á ári um 170000 kr., en samkv. þessari áætlun væri ekki eftir til orkukaupa nema 89000 kr., þegar gerður er samanburður á áætlunum um kostnað við virkjun Andakílsárfossa og að flytja rafmagn frá Soginu. Þessar áætlanir báðar liggja fyrir, og við flm. skulum afla þeirra handa n., svo að málið þarf þess vegna ekki að dragast. Ég hygg, að það muni almennt verða viðurkennt, líka af þeim, sem álíta, að að því beri að stefna, að stóru fallvötnin verði virkjuð og rafmagni dreift þaðan, að þessi virkjun falli algerlega inn í það heildarskipulag, svo að það þarf síður en svo að vera fráfælandi fyrir þá að afgreiða málið á þessum grundvelli. En það er vitað, að ef á að slá slíku máli sem þessu á frest, þá getur það orðið til að eyðileggja þá möguleika, sem nú má vænta, að séu fyrir hendi um öflun lánsfjár með það góðum kjörum, að þetta fyrirtæki geti borið sig. En svo þegar kemur að því að veita rafmagninu út um hinar dreifðu byggðir þessa lands, þá vita allir, að það getur ekki orðið, nema til komi beinn fjárstyrkur frá því opinbera auk ábyrgðar og láns. En einn sterkur þáttur í að hrinda þessu mikla máli í framkvæmd er að afla lánsfjár til að veita rafmagni út um hinar dreifðu byggðir landsins, og er þá fullkomlega athugavert að nota þá fjárhagsaðstöðu, sem nú er, betur en enn hefur verið gert til þess að leggja grundvöll undir þessar framkvæmdir.