16.02.1943
Neðri deild: 59. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

21. mál, virkjun Andakílsár

Pétur Ottesen:

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. forseti, sem á að vaka og vakir yfir gangi mála hér á hæstv. Alþ. og því, að sæmileg vinnubrögð séu af hendi innt, bæði í n., sem starfa hér í hv. þd., og líka í hv. d., hafi veitt því eftirtekt, að mál, sem snertir okkur þm. Mýra- og Borgarfjarðarkjördæma, sem vísað var til fjhn. 4. des. s.l., hefur ekki enn þá fengið neina afgreiðslu í þeirri n., svo að vitað sé. Hins vegar sé ég, að tekið hefur verið hér á dagskrá í dag frv. um svipað efni, þ.e. virkjunarmál, sem vísað var til fjhn. alllöngu seinna en því frv., sem Ég ræði hér um og snertir hv. þm. Mýr. og mig. Ég held, að því frv. hafi ekki verið vísað til n. fyrr en um miðjan desembermánuð, en það virðist hafa fengið afgreiðslu í n. Það liggur fyrir þskj. um það, og það hefur verið tekið á dagskrá.

Vil ég þess vegna mjög beina því til hæstv. forseta, að hann finni skyldu sína í því að krefja n. um afgreiðslu þess máls og að dráttur verði ekki á því úr þessu. Ég vil mjög mælast til þess, fyrir hönd okkar hv. þm. Mýr. og mín, að hæstv. forseti geri gangskör að því, að þessu máli verði ekki komið fyrir kattarnef með þeim hætti, að það verði lagzt á það í n., því að það ætti að vera orðið þar fullsetið.