09.03.1943
Neðri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

21. mál, virkjun Andakílsár

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. — Það varð ekki samkomulag i fjhn. Um þetta mál. Og ég stóð einn með því, að frv. yrði samþ. með mjög litlum breyt. Það var fyrst svo í n., þegar verið var að ræða um þetta, að það virtist ætla að verða ofan á, að meiri hl. n. legði til, að frv. þetta yrði fellt, nefnilega að það yrði ekki samþ. að virkja Andakílsfossana, heldur skyldi reyna að útvega íbúum Akraness, Borgarfjarðar og Mýrasýslu það rafmagn, sem þeir þyrftu, frá Sogsvirkjuninni. Það hafði verið leitað álits mþn. í raforkumálum viðvíkjandi þessu máli, og sú n. skrifaði álit, sem ég skal leyfa mér að lesa nokkuð úr, með leyfi hæstv. forseta. Mþn. í raforkumálum kemst að þeirri niðurstöðu, að „hagkvæmast verði að bæta úr rafmagnsþörf fólksins í þessum landshlutum (þ.e. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og á Akranesi) með því að auka við aflstöðvarnar í Sogi og Laxá og tengja þær saman með landslínu um þau héruð, sem nefnd hafa verið“. Og enn fremur segir þessi n. sérstaklega viðvíkjandi virkjun Andakílsfossanna: „Nefndin getur því ekki mælt með því, að frv. verði samþ., þar sem hún telur hagkvæmara að fullnægja raforkuþörf manna í viðkomandi hér aði á annan hátt og álitur, að slíkt þurfi ekki að verða til þess að tefja lausn málsins“. Það var sem sé auðséð, að mþn. í raforkumálum lagði á móti því, að þetta frv. yrði samþ. á einn eða annan veg, og byggði það á þeirri hugmynd, að nægilegt rafmagn mundi verða hægt að fá í náinni framtíð handa þessum héruðum frá Sogsvirkjuninni og frá Laxá. Ég veit ekki, hvað valdið hefur því, að r. komst á þessu stigi málsins að þessari niðurstöðu. Ég veit ekki um rök fyrir því máli. En í fjhn. var farið að ræða þessar niðurstöður mþn. í raforkumálum. Við fengum álit Árna Pálssonar verkfræðings, og var þetta rætt við hann nokkuð ýtarlega. Ég veit ekki, hvort það er afleiðingin af því samtali, að meiri hl. í fjhn., sem einnig er meiri hl. í mþn. í raforkumálum, breytir skoðun og leggur til, að horfið verði að því að virkja Andakílsfossana, en með því skilyrði, að ríkið reki virkjunina. Mér er nær að halda, að raforkumálan., hafi bitið sig nokkuð fast þar í, að það mundi vera langbezt, ef hægt væri að virkja bara tvö vatnsföll og leggja svo bara línur frá þeim út um allt landið. Og þessi hugmynd virðist halda áfram hjá n. og móta allar hennar till. í sambandi við þessi mál. Það verður því alls ekki hjá því komizt í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, að ræða þó nokkuð almennt um þessa hugmynd, því að það er hún, sem veldur því, að meiri hl. leggur til, að ríkið reki Andakílsvirkjunina og að lagðar skuli vera línur frá þeirri virkjun norður til Strandasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu og Austur-Húnavatnssýslu. Ég veit ekki, hvort þörf er á fyrir mig að ræða um Andakílsvirkjunina sem slíka. Ég hef í nál., sem ég hef gefið út, gert nákvæmlega grein fyrir, hvernig þetta fyrirtæki er, hve mikið vatnsafl þar er og hve tiltölulega ódýr þessi virkjun kemur til með að vera, líka meðan hún er ekki nema 2400 hestöfl. Og meðan ekki koma mótmæli gegn því, sem þar er fram sett, mun ég ekki fjölyrða um virkjunina sjálfa, heldur aðeins staðhæfa það, eins og ég þykist líka sýna fram á í nál., að þessi virkjun sé mjög heppilegt fyrirtæki og að undirbúningur allur hafi verið tiltölulega mjög vel gerður og allar áætlanir um virkjunina nákvæmlega endurskoðaðar, þannig að vissa sé fyrir því, að þetta fyrirtæki muni geta borið sig. Það er þess vegna rétt að athuga nú þegar þessa hugmynd, sem hv. meiri hl. n. kemur fram með í sambandi við þetta mál um það, að hentugra muni vera að taka. Andakílsvirkjunina þannig að leiða frá henni línur til Norðurlands heldur en að leggja í virkjanir annars staðar fyrir Strandasýslu og Húnavatnssýslur. Ég álít, að þessi hugmynd hjá hv. meiri hl. fjhn., að það ætti að nota Andakílsfossavirkjunina til þess að framleiða rafmagn fyrir Strandasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu og Austur-Húnavatnssýslu, sé í raun og veru nýtt upplag af gömlu hugmyndinni að því að leggja línur frá Soginu til Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og frá Laxá um allt Norðurland.

Þessi leið, að hafa fáar stöðvar, en leggja frá þeim langar línur, er dýrari og um leið sú aðferð, sem er minnst örugg. Ef við ætlum að tryggja öllu landinu rafmagn, verðum við fyrst og fremst að stefna að því að hafa það sem mest og geta haft það sem ódýrast á hverjum stað og geta haft það svo mikið, að hægt sé að nota það ekki aðeins til ljósa og suðu, heldur líka til hitunar og iðnaðar. Og ef við ætlum að gera þetta, verðum við að nota sem mest af vatnsfalli okkar í framtíðinni. Það væri því heimskulegt að ætla að binda sig við að virkja t.d. tvö vatnsföll og ætla að leiða rafmagn frá þeim út um sveitir og á þá staði, þar sem ætti að nota rafmagnið. Þær leiðslur, sem til þess þyrfti, mundu verða gífurlega dýrar. Við sjáum það, ef við athugum þá leiðslu, sem til þess þyrfti að vera frá Laxá til Siglufjarðar. Við höfum líka reynslu af því, hve lítið öryggi er í því að hafa langar háspennuleiðslur. Ef verulegt óveður kemur hér, bílar háspennulinan frá Soginu. Og ekki er þá ólíklegra, að háspennulína, sem lögð yrði frá Andakílsfossum eða Soginu norður yfir Holtavörðuheiði, mundi bila, nema hún yrði grafin niður, sem yrði þrefalt dýrara. Að leiða rafmagn frá Andakílsfossum og norður yfir Holtavörðuheiði yrði því dýrasta aðferð til þess að sjá þeim þar fyrir norðan fyrir rafmagni og jafnframt sú óöruggasta, og mundi veita þeim tiltölulega lítið rafmagn og helzt til ljósa. Og það rafmagn mundi ekki geta verið tryggt vegna bilana, þegar nokkuð væri að veðri. Það, sem þess vegna væri stefnt að með slíkri aðferð, mundi vera það dýrasta og óöruggasta. Að virkja fá vatnsföll fyrir stór svæði mundi því bæði verða tiltölulega dýrt og ekki gefa nema tiltölulega lítið rafmagn, rétt til ljósa og máske ofurlítið til suðu, en mundi síðan verða til þess, að alltaf, þegar mest lægi á að hafa rafmagnið, þá þá mundu leiðslurnar bila. Þá mundi ljósið, sem menn tala um, að þurfi að lýsa upp í dimmviðrum í strjálbýlinu, slokkna, og mundi taka óratíma að gera við það, fyrir utan það, að þegar íbúum fjölgaði á þessum stöðum, yrði rafmagnið of lítið, og yrði þá að ráðast í að byggja nýjar stöðvar. Við höfum reynslu af því, að alltaf hefur verið gert ráð fyrir of lítilli notkun rafmagnsins, þegar stöðvar hafa verið reistar, að það hefur aldrei verið athugað nóg, að hægt væri í framtíðinni að auka rafmagnið. Við verðum að athuga það, að hvarvetna þar, sem rafmagn er leitt, sprettur upp vegna rafmagnsins nýr möguleiki til iðnaðar, sem krefst þá rafmagns. Það spretta upp möguleikar, sem ekki er hægt að nota nema með nægilegu rafmagni.

Ég vil benda á út af því, sem liggur til grundvallar fyrir þeim útreikningi, sem a.m.k. ég lagði til grundvallar hér í nál. mínu, að þegar I. um Sogsvirkjunina voru samþ., þá var gert ráð fyrir, að þaðan mætti fá 110 þús. hestöfl.

Og það mun sýna sig, að í framtíðinni mun það ekki gera betur en að fullnægja rafmagnsþörf Rvíkur, vegna þess að gera má áreiðanlega ráð fyrir, að sá iðnaður, sem er í Rvík, aukist það mikið. Og jafnvel er líklegt, að það muni ekki nægja Rvík einni saman í framtíðinni. Og rafmagnið kemur til með að sýna sig að vera drýgsta og, — ef rétt er á haldið, — ódýrasta aflið í atvinnu okkar hér á landi, ef hér kemur upp verulegur iðnaður.

Gert er ráð fyrir, að í Andakílsá sé hægt að virkja 12 þús. hestöfl. Og ég álít, að íbúum Akraness, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu veiti ekki af því í framtíðinni að nota þetta rafmagn allt fyrir sig. Og ég skal nefna í þessu sambandi, að í því nál., sem „Rauðka“ á sínum tíma gaf út, var getið um, að rannsóknir á því, hvaða iðnaði væri hægt að koma upp hér á landi, hefðu leitt í ljós, að sementsgerð væri slíkur iðnaður. Og það var sérstaklega lagt til af þeirri n., skipulagsn. atvinnumála, að sementsiðnaði yrði komið upp á Akranesi. Það var gert ráð fyrir, að 550 kW. mundi þurfa til rekstrar verksmiðjunnar. En það. sem hins vegar olli því, að hætt var við þessa hugmynd eða gefizt upp við hana, var, . að það, sem átti að nota til brennslunnar við þennan rekstur, var kol. Og það þótti ekki gjaldeyrissparnaður að því, eins og þá var, að koma verksmiðjunni upp þannig að nota til þess kol. Hins vegar. býst ég við, ef hægt væri að nota rafmagn við reksturinn, þá mundi þurfa til slíkrar verksmiðju nokkur þús. hestöfl. Þannig að ef farið væri að koma upp sementsverksmiðju á Akranesi til þess að framleiða jafnvel megnið af því sementi, sem við þurfum á að halda, þá mundi sá rekstur taka líklega 3–4 þús. hestöfl af því rafmagni, sem hægt væri að framleiða við Andakílsfossana.

Ég býst við, að hægt væri að nefna mörg slík dæmi og fleiri staði en Akranes um það, að ef við ætlum að skapa stóriðju hér á landi, þá verðum við að nota rafmagn í stórum stíl til þess, og þá verðum við að fá sem mesta raforku á hverjum stað fyrir sig, þannig að í staðinn fyrir það, sem fyrir hv. meiri hl. fjhn. vakir, að píra rafmagninu út um allt land svo að aðeins lítið verði handa hverjum stað, lítið gagn verði að því og lítið öryggi um, að það bili ekki, en verði hins vegar dýrt, þá verðum við að stefna að því að virkja á sem flestum stöðum, þar sem það getur borið sig, og nota rafmagnið þar sem mest og gera það á hverjum stað sem allra ódýrast. Það verður þá áreiðanlega að taka þá leið, heldur en ætla sér að leggja frá Sogsvirkjuninni eða Andakílsvirkjun rafmagn til Strandasýslu, Hvammstanga og Blönduóss og sveita Húnavatnssýslna og píra því þannig, að lítið rafmagn verði handa hverjum manni og dýrt þar nyrðra, en of lítið handa Akranesi. Við eigum heldur að virkja vatnsföll í Strandasýslu og Húnavatnssýslum og skapa möguleika þar fyrir iðnað, svo að hægt verði að selja rafmagnið ódýrt, til þess að þeir, sem þar búa í þorpum og sveitum, geti haft nóg rafmagn til ljósa, suðu og hitunar.

Við verðum að gera það upp við okkur, hvort við ætlum að haga okkur eins og framsýnir menn í þessu sambandi, þ.e., hvort við ætlum að taka tillit til framtíðarinnar eða hvort við ætlum að taka aðeins til greina augnablikshagsmuni, en ekki þörf framtíðarinnar. (Frh.]