04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (3064)

22. mál, sala hluta úr landi Viðvíkur

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. — Þetta mál, sem frv. á þskj. 32 er um, er ekki stórt mál, og mun ég ekki þurfa að eyðu miklu af dýrmætum tíma þingsins til þess að tala fyrir því. Það er um það að heimila ríkisstj. að selja eiganda nýbýlisins að Kolkuósi í Skagafirði hluta úr landi jarðarinnar Viðvíkur, sem er sá hluti beitilands, sem Viðvík á neðan Ásgarðslands, ca. 155 ha. að stærð, og í öðru lagi Elínarhólma, og er ætlunin að leggja þetta land undir Kolkuós. Nýbýlið Kolkuós er byggt úr landi Viðvíkur og Ásgarðs, og þó meira úr landi Viðvíkur. Bóndinn í Viðvík hefur þessa lands, sem um er að ræða, engin not, en bóndinn að Kolkuósi, sem stundar búskap sinn með mestu prýði, hefur landsins mikla þörf. Það má því gera ráð fyrir, að þetta litla frv. nái fram að ganga, enda hefur nýbýlastjórn ríkisins mælt með því að leyfa þessa sölu. Er með grg. sem fylgiskjöl bréf frá nýbýlastjórn ríkisins til þingmanna Skagfirðinga um þetta og einnig bréf frá bóndanum að Kolkuósi til nýbýlastjórnar ríkisins.

Auk þess lands, er í frv. getur, hefur bóndinn að Kolkuósi farið fram á, að lagt verði til Kolkuósslands engjastykki 4–5 ha. stórt. Nýbýlastjórn mælir með því, að hann fái keypt beitilandið og Elínarhólma (sem frv. er um), en mælir ekki með því að selja engjastykkið. Hér í þessu frv. er því ekki farið fram á heimild til að selja þessum bónda annað land en það, sem nýbýlastjórn hefur mælt með, að honum skuli selt.

Vildi ég mælast til þess, að hv. þd. taki þetta til vinsamlegrar athugunar. Það sýnist ekkert vera því til fyrirstöðu, að þetta sé heimilað, og það er áreiðanlegt, að svo er bezt komið málinu. Elínarhólma er ekki hægt að nytja frá heimajörðinni; aftur á móti er það hægt frá Kolkuósi. Það er ekki heldur til meins fyrir Viðvíkurbóndann, þó að þetta beitiland verði selt og lagt undir Kolkuós.

Vil ég mælast til þess, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til 2. umr. og landbn.