17.12.1942
Neðri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

22. mál, sala hluta úr landi Viðvíkur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að leggjast á móti þessu frv., enda þótt ég greiði ekki atkvæði því til framdráttar. Ég vil gjarnan segja það sem leiðbeiningu fyrir þá, sem kunna að meta þetta land á sínum tíma, að á síðari árum hefur varphólmi sá, sem hér um ræðir, verið leigður sitt á hvað og er kominn í óhirðu, svo að hann gefur miklu minna af sér en annars mundi vera og hann áður gerði. Þetta vil ég láta koma fram, svo að þeir, sem meta hólmann, miði ekki við síðustu ár, því að það er fyrir óhirðu manna, sem hafa haft landið sitt á hvað, að varpið er komið eins og er. Enn vildi ég á það benda, að þarna er löggiltur verzlunarstaður, og mundi rétt, þótt salan yrði samþ., að undanskilja sölunni verzlunarlóðina.