09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

168. mál, óskilgetin börn

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 691.

Af þeim mönnum, sem daglega fjalla um þau mál, sem hér um ræðir, eru þau talin ákaflega erfið í framkvæmd. Annars vegar er að reikna út dýrtíðaruppbótina mánaðarlega og hins vegar borga út féð. Af þessu stafa miklir erfiðleikar um land allt, og verða barnsmæður að ganga eftir meðlagi með börnum sínum á nokkurra mánaða fresti.

Vil ég því leggja til, að tekinn sé upp sá háttur, að ríkisstj. sé heimilað að ákveða um greiðslur þessar og um hámark meðlaga. Nái þetta til áranna 1942–'43. Hér er um miklar fjár hæðir að ræða, sem að mestu lendir á opinberum sjóðum að greiða, því að oft er erfitt að innheimta þessar upphæðir, ekki sízt, þegar um drátt er að ræða á kröfu um meðlag.

Tel ég það mjög mikilsvert, að barnsmæður og börn hafi svona lög sér til stuðnings, og er það mjög sanngjarnt ekki sízt nú í vaxandi dýrtíð og vegna þeirra örðugleika, sem hún skapar. Það er meginhugsun frv. Með þessu móti er hægara um allar framkvæmdir. Hér er um að ræða útgjöld, sem nema frá 1/2 og upp í 1 millj. kr. Það er miklum vandkvæðum bundið að samþykkja frv. án þess að taka brtt. mína til greina. Hún bætir það stórlega og færir í það horf, sem upphaflega var gert ráð fyrir.