18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Rannsókn kjörbréfa

Forsrh. (Ólafur Thors):

Skilningur hv. 3. landsk. (HG) á hinu umdeilda atriði laganna fær að mínu viti engan veginn staðizt.

Varðandi till. viðskiptamálarn., hversu miklu skyldi haldið eftir af mjöli til þess að fullnægja þörfum bænda, þá má vel vera, að n. hafi ekki vitað að það var vilji Alþ., að þessi nauðsynjavara yrði seld bændum landsins fyrir neðan það, sem jafngilti markaðsverði erlendis. Ég skal því ekki ámæla n. fyrir till. hennar. En Búnaðarfélag Íslands, sem á að vera kunnugt þessum málum, vissi, að búið var að ákveða verðið 32 kr., þegar það gerði till. sínar. Það er tæplega til þess að ætlast, að landbrh. gangi lengra í þessu efni en Búnaðarfélag Íslands leggur til, en ég gekk þó og stj. helmingi lengra. Og það sýnir baráttuaðferð andstæðinganna, að þetta skyldi gert að ádeiluefni á stj. Ég tel réttlátt, að gefin verði út skýrsla um þetta af landbrn., og mun ég hlutast til um, að þar verði birt öll bréf milli viðskiptan. og Búnaðarfélagsins og landbúnaðarráðuneytisins.

Ræða hv. þm. V.-Húnv. er ein af mörgum ófögrum myndum af baráttuaðferð Framsfl. Hann sagði, að það sýndi hug minn í garð bænda, að ég hefði fárazt yfir, að bændur í ákveðnu kjördæmi hefðu borið á sér 100 kr. seðla. Ég sagði ekkert, sem gaf tilefni til þess. Ég get sagt honum, að bæði úr hans kjördæmi og öðrum hef ég fengið þakkir fyrir, að ég hafi á þessum stutta valdatíma mínum sem landbrh. komið fram í garð bænda með meiri skilningi en Framsfl. gerði á sínum langa valdatíma. Ég sagði þessa sögu, sem ég hafði heyrt úr einu kjördæmi, að eftir einn fund framsóknarmanna þar hefðu bændurnir, sem á fundinum voru, keypt sér kaffi og allir borgað með nýjum 100 kr. seðlum. Í mínum eyrum var þetta lygasaga, og ég tók fram, að þetta væri lygasaga, en sá munur er á mér og þessum hv. þm., að hann fer með sögurnar frá Kristjáni Jenssyni sem heilagan sannleika, þó að hann skorti manndóm til að taka þær upp sem sitt eigið mál.

Varðandi dreifinguna á síldarmjölinu þá er það að segja, að það félag, sem nefnt hefur verið í sambandi við það mál, er vitanlega sjálfrátt að, hvað það gerir við síldarmjöl sitt. Einn af forstjórum þessa fyrirtækis hefur í mörg ár beðið hann að útvega sér síldarmjöl, því að þeir hafa talið mjölið frá þessari verksmiðju öruggara að gæðum en það, sem ríkisverksmiðjurnar framleiða. Eins mun það hafa verið í haust, að þessum bændum mun hafa verið útvegað síldarmjöl frá þessari verksmiðju, auðvitað eingöngu eftir pöntunum. Ég er ekki óvanur árásum frá þessum hv. þm., en ég skal láta rannsaka, hvort hér er um nokkuð athugavert að ræða eða hvort þetta er aðeins róghneigð þessa hv. þm. og flokksmanna hans. Ég geri ráð fyrir, að þá komi í ljós annars vegar róghneigð þessa fl. og hins vegar, að þegar einhver annar en framsóknarmaður gerir bændum eitthvað til velþóknunar, þá er eins og rýtingi Sé stungið í bakið á Framsóknarmönnum, sem einir þykjast hafa rétt til að starfa að málum bænda.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. S.-Þ. fái stutta aths., ef hann telur ástæðu til að svara þeim orðum, sem ég beindi til hans. Hann skoraði á mig að færa stað þeim orðum mínum, að Framsfl. hefði notað valdaaðstöðu sína sér og sínum fl. til framdráttar á kostnað ríkissjóðs! Ég skal verða við þeim tilmælum, og er reiðubúinn að fara fram á, að kjörbréfan. taki það líka til rannsóknar. En ég staðhæfi, að í valdatíð Framsóknar megi sýna fram á, að kjördæmi, sem voru honum ekki þóknanleg, voru ver sett en þau, sem fundu náð fyrir augum hans pólitískt. (JJ: Er það múta?). Já, það er múta, þegar hann vilnar þeim í, sem eru með honum. Það er eins og ég sagði við hann út af einni fjárveitingu: Þú fékkst 40 þús. og svo stalstu 400 þús., og ég er því fylgjandi, að kjörbréfan. rannsaki, hvað hefur farið til kjördæma framsóknarmanna og hvað hefur farið til kjördæma andstæðinga þeirra. Ef það verður staðfest, sem ég hef sagt, þá skal ég éta allt ofan í mig — (JJ: Það er eins gott fyrir hv. þm. að gera það strax.), en ef ég hef rök að mæla, þá vil ég, að hann viðurkenni, að kjarni míns máls er réttur.