11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (3105)

41. mál, virkjun Tungufoss

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um virkjun Tungufoss í Rangárvallasýslu. Það eru mörg ár, síðan það komst á dagskrá austur þar að virkja Tungufoss. Fossinn hefur verið mældur, og kemur verkfræðingum saman um, að aðstaða til virkjunar sé þar ágæt. Engin fullnaðaráætlun hefur þó verið gerð um kostnað við virkjunina, og áætlun sú, sem gerð hefur verið, ekki nógu nákvæm til þess, að eftir henni verði farið með framkvæmdir og virkjun fossins. Þegar málið komst á það stig, sem það nú er, fór Vestmannaeyinga að dreyma um, að þeir gætu fengið rafmagn úr landi, og þá sérstaklega í félagi við Rangæinga. Sundið milli Vestmannaeyja og lands er mjóst við Landeyjasand, verður því strengurinn lagður þaðan út, hvort sem orkan yrði tekin frá Tungufossi eða Sogsfossum. En eðlilegast er, að samvirkjun verði á Tungufossi, er Vestmannaeyingar og Rangæingar standi að.

Aðstaða til að leiða rafmagn til bæja í Rangárvallasýslu er tiltölulega góð og skilyrði til fjölgunar býla ágæt, enda hefur oft verið talað um það í Holtunum að fjölga þar býlum, vegna þess hve jarðvegurinn er þar góður. Ef rafmagn fæst í sveitirnar, mun byggðin þéttast, enda viðurkennt, að sú stefna sé æskileg. Ég á ekki við, að býlin færist saman, heldur að fyllt verði upp í eyðurnar. Þá munu skapast þorp, þar sem fer saman landbúnaður og iðnaður. Þetta getur þó ekki orðið nema þar, sem héruð liggja vel við samgöngum, en það mun óvíða haga betur til í því efni en í Rangárvallasýslu. Það komu fram þau ummæli í einu dagblaðinu síðastl. sumar í sambandi við raflýsingu sveitanna, að nú ætti að fara að raflýsa fátæktina. Ég vona, að enginn af hv. þm. sé svo vantrúaður á framtíð landbúnaðarins, að hann sé andvígur því að skapa jafnvel þeim, sem búa í dreifbýlinu, þau bættu kjör, sem raforkan veitir.

Flm. þessa frv. hafa gert sér það ljóst, að með þeirri aðstöðu, sem er í Rangárþingi og Vestmannaeyjum, muni Tungufoss bezt fallinn til þess að gefa raforku um þessi byggðarlög. Frv. gerir ráð fyrir allt að 5 millj. kr. ríkisábyrgð. Ef ekki verður byrjað á virkjuninni fyrr en bæði efni og vinna eru orðin ódýrari en nú er, þá eru ekki líkur til, að nota þurfi alla þessa heimild. En nú er hagkvæmur tími til þess að fá lán með góðum kjörum. Og þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið hafi sem tryggingu fyrir ábyrgðinni eignir fyrirtækisins, þá sýnist ekki hætta á ferðum, þótt ábyrgðarheimildinni sé beitt.

Ég sé enga þörf á að lengja umræður um málið á þessu stigi, en bið hv. alþm. að greiða atkv. með því, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.