11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (3110)

42. mál, ráðstafanir til þess að tryggja húsnæðislausu fólki húsnæði og um stóríbúðaskatt

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Frv. þetta fjallar um tvö meginatriði. Hið fyrra er heimild fyrir bæjarstjórnir og hreppsnefndir að skammta húsnæði, þ.e. að skylda þá, sem hafa stórar íbúðir, að láta nokkuð af húsplássi sínu til afnota fyrir heimilislaust fólk. Hið síðara er um skatt á stórar íbúðir, í því skyni að vinna á móti því, að menn búi í óhóflega stórum íbúðum. Það mætti ætla, að margir mundu spyrja, hvort nauðsyn væri að grípa til slíkra ráðstafana. Um það er hægt að sannfærast með því að lesa skýrslur um ástandið í Rvík varðandi þetta mál. Í sumar, sem leið, fór fram að tilhlutun bæjarstj. Rvíkur athugun á því, hversu margir væru hér heimilislausir. Leiddi sú athugun í ljós, að 2592 einstaklingar, — eða 69 fjölskyldur, sem í voru 854 börn, — voru húsnæðislausir. Nú mætti ætla, að úr þessu hefði eitthvað verulega rætzt, síðan skýrslum þessum var safnað, og víst er um það, að við síðustu “athugun virtist ástandið nokkuð betra en þegar skýrslan var gerð. En ástæða er að athuga, á hvern hátt rætzt hefur úr fyrir þeim, sem töldu sig hafa fengið húsnæði. Það er aðallega á tvennan hátt. Sumpart liggur það uppi á frændfólki og vinum, þ.e.a.s. er í íbúðum annarra, og er í sumum þessum íbúðum ákaflega þröngt. Aðrir hafa flutt í sumarbústaði í bæjarlandinu og nágrenni bæjarins, og eru þeir bústaðir ekki stærri en 25 fermetrar. Þessi ákvörðun bæjarstjórnar, að takmarka stærð sumarbústaða, var gerð í því skyni að fyrirbyggja, að sumarbústaðir yrðu gerðir að varanlegum bústöðum, og hafa flestir því ekki kappkostað að gera þá þannig úr garði, að þeir væru hæfir til vetrarvistar. Flestir eru þannig gerðir, að slegið er upp timburgrind og svo þiljað utan og innan á hana, án þess að nokkurt tróð sé á milli. Öllum er ljóst, að slík hús eru óhæf að vetri til sem sómasamlegur dvalarstaður.

Þó að húsnæðislaust fólk teljist því færra nú við skýrslusöfnun en í sumar, þá er það alls ekki af því, að það hafi fengið viðunanlega eða varanlega úrlausn mála sinna. Ástandið er núna þannig, eftir því sem næst verður komizt:

1) 120 menn hafa leitað til bæjarins og beðið hann að leysa húsnæðisvandræði sín. Þeir hafa enga úrlausn fengið.

2) 44 fjölskyldur eru bókstaflega á götunni, þ.e.a.s., þær eru sundraðar.

3) 7 fjölskyldur búa í búningsklefunum á Íþróttavellinum. Þar eru tveir stórir búningsklefar. Búa karlar í öðrum þeirra, en konur og börn í hinum. Þeir eru þannig byggðir, að bárujárn er utan á trégrind, panel innan á, en ekkert tróð. Lífi og heilsu þessa fólks er hætta búin, ef það neyðist til að dvelja þarna lengi.

Ég ætla, að ekki þurfi fleiri rök fram að telja fyrir því, að ástandið sé svo slæmt, að ekki sé lengur við unandi. Því hefur verið beint til ríkisstj., að hún gerði viðhlítandi ráðstafanir til úrbóta í þessum efnum. Ríkisstjórnin sá sér ekki fært að verða við þessum tilmælum nema að nokkru leyti. Hún sem sé gaf út l. um að taka sumarbústaði leigunámi, en skömmtun húsnæðis vildi hún ekki fallast á, og hefur hæstv. fjmrh. gert grein fyrir því í d., að slík l. telji hann ganga svo mjög á rétt einstaklinga, að hann sjái sér ekki fært að setja slík brbl., en öðru máli gæti gegnt, hvað þingið sæi sér fært að gera.

Í raun og veru er ekki um nema tvær leiðir að ræða til að bæta úr húsnæðisvandræðunum. Annaðhvort verður að byggja nýjar íbúðir eða nota betur þann húsakost, sem fyrir hendi er. Nú er það vitað, að fyrrnefnda leiðin er ekki fær. Það verður ekki í skjótri svipan komið upp hér í Rvík nýjum íbúðum. Vitanlega er það framtíðarlausnin að byggja og bæta á þann hátt úr vandræðunum, en augnabliksvandræðin verða ekki leyst á þann hátt, og er þá ekki í annað hús að venda en að nota betur það húsnæði, sem fyrir er. Húsaleigulögin ákveða, að taka megi ónotað húsnæði leigunámi. Það er gott, svo langt sem það nær, en við vitum vel, að húsnæðisráðunautur bæjarins hefur haldið fram, að húsaleigunefnd væri svifasein í þessum málum og hann hefði oft snúið sér til hennar án þess að fá þar þá lausn, sem hann taldi réttláta. Ég hygg, að þessi reynsla styðji þá skoðun, sem fram hefur komið í dag í sambandi við annað mál, að rétt væri að breyta skipun húsaleigunefndar þannig, að bæjarstjórn skipi hana. Hins vegar er það ljóst mál, að fjöldi manna í höfuðstaðnum býr við ónauðsynlega, jafnvel óhæfilega stórt húsnæði. Dæmi eru þess, að fjölskyldur, sem eru jafnvel ekki nema tveir menn, búi í húsum, sem telja milli 10 og 20 herbergi. Slíkt er óhóf, þegar aðrir eru bókstaflega á götunni eða búa við skilyrði, sem hljóta að valda þeim heilsutjóni, ef svo fer fram til lengdar. Ég tel því, að hér sé ekki annað að gera en að gefa bæjarstjórn heimild til að grípa til skömmtunar á húsnæði, og um það fjallar fyrri hl. þessa frv.

Ég ætla ekki fremur en venja er við 1. umr. að ræða einstakar gr. frv., en ég vil aðeins benda á í sambandi við þann stiga, sem er lagður til í 3. gr., þá eru það fremur ábendingar en endanlegar till., sem ég vænti, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki rækilega til íhugunar. Við flm. erum að sjálfsögðu reiðubúnir til samstarfs við n. og aðra hv. þm. um annan stiga, ef þessi þykir við nánari athugun ekki svo góður sem skyldi.***

Um síðari kafla frv. þarf fátt fram að taka. Þar eru till. um stóríbúðaskatt. Þær miða að því að draga úr hvöt manna til að búa í óhæfilega stórum íbúðum, því að eins og ég hef áður bent á, verður slíkt að teljast ósæmilegt, meðan fjöldi manna býr við húsnæðisskort. En sé hins vegar svo, að sæmilega sé séð fyrir húsnæðisþörf alls fjöldans, en einhverjir telji sig hafa ráð á og löngun til að búa í óhæfilega stórum íbúðum, þá er ekki nema rétt, að þeir borgi nokkurn skatt fyrir það, sem rennur í bæjarsjóð.

Ég vil svo að lokum óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til allshn. Það er ekki sæmandi að láta menn búa í búningsklefum Íþróttavallarins og öðrum álíka íbúum, ef nægilegur húsakostur er til og hægt er að leysa málið á viðunandi hátt, og ég tel skyldu þingsins að afgreiða málið á fáum dögum, svo að bæjarstjórn fái aðstöðu til að leysa vandræði húsnæðislausra manna án meiri dvalar en orðið er.