17.12.1942
Neðri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (3115)

54. mál, notkun byggingarefnis

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Þetta frv. er flutt til þess að reyna að koma í veg fyrir, að byggingarefni það, sem flutt er til landsins, sé notað til annars en þess, sem nauðsynlegast er. Það er vitað, að fjöldi manns er húsnæðislaus í landinu, og vitað er, að nokkuð af því byggingarefni, sem flutt er inn, er notað í byggingar, sem ekki er annað hægt að segja um en að þær mættu bíða á sama tíma og ekki fæst efni í íbúðarhús. Það þarf ekki að taka það fram, að þetta frv. er eingöngu ætlað sem ófriðarráðstöfun, meðan tregt er um útvegun og flutning á byggingarefni til landsins.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að innfluttu byggingarefni sé fyrst og fremst varið til íbúðarhúsa, sem miðist við meðalþarfir fjölskyldna til sjávar og sveita. Ég vil skjóta því til n., sem fer með málið, að ef til vill ætti að láta ganga fyrir sambyggingar í kaupstöðum til þess að spara byggingarefnið. Þá er gert ráð fyrir að nota byggingarefnið í þágu framleiðslunnar og síðan til opinberra framkvæmda og bygginga, svo sem brúargerða, hafnargerða, vitabygginga, sjúkrahúsa, skólahúsa, sundlauga o.þ.h.

Það er gert ráð fyrir í frv., að húsaleigun., sem starfi í hverjum kaupstað, hafi með höndum úthlutun byggingarefnis, en að innflutningsog gjaldeyrisn. skipti byggingarefninu um landið. Það er að vísu svo, að skattan. hafa haft með húsaleigumálin að gera, en nú liggur fyrir frv. um að breyta þessu þannig, að húsaleigun. verði kosnar í kaupstöðum, og er líklegt, ef sú breyt. nær fram að ganga, að þær verði valdar með þetta fyrir augum og þær hafi þetta með höndum jafnframt því, sem þær fara með húsnæðismálin hver á sínum stað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vænti þess, að frv. fái góðar undirtektir, og óska þess, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.