18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (3142)

94. mál, húsaleiga

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Ég flyt hér 5. þskj. 143 lítils háttar viðauka við húsaleigul., sem miðar að því að breyta l. þannig, að þau nái yfir leigu eftir verbúðir.

Þegar l. þessi voru sett, var meiningin sú, að húsal. hækkaði ekki nema eftir almennum reglum, sem settar yrðu samkv. l. Nú hefur sú raun orðið á, að t.d. leiga eftir sjóhús hefur farið lækkandi víða um land, og hefur þetta valdið ákaflega mikilli óánægju. Mér er kunnugt um það, að á Austurlandi, þar sem leiga eftir verbúðir hefur hækkað mjög mikið, hafa menn spurzt fyrir um það, hvort slík hækkun varðaði ekki við l. samkv. húsaleigul. frá 1941, en þessum spurningum hefur ýmist verið vísað frá eða svarað neitandi. En það gefur að skilja, að það er mjög svo svipað ástatt um þessa leigu sem aðra, og ég sé enga ástæðu til, að þeir, sem eiga sjóhús og verbúðir, fái að taka fyrir slík hús margfalda leigu á sama tíma og öðrum er bannað að hækka leigu nema að sáralitlu leyti. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að skýra hv. þd. frá því, hvernig t.d. er ástatt í þessum málum þar, sem ég er bezt kunnugur, en það er í Hornafirði. Það hafði verið þannig um mörg ár, að útgerðarmenn eystra höfðu borgað í húsaleigu ákveðinn part af fiskverðinu. Meðan fiskverð var lágt og afli lítill eða venjulegur, þá var þetta meðalleiga. En þegar fiskverðið hækkaði og afli fór þá líka að glæðast, varð gjaldið afar hátt og ekki sambærilegt við það, sem það var á öðrum stöðum á landinu. Stærstu bátarnir, sem gerðu út frá Hornafirði á s.l. vetri, greiddu í húsaleigu og ljós um kr. 8000,00 á sama tíma og bátarnir hér fyrir sunnan greiddu kr. 2400,00 fyrir sambærilegt pláss. Auk þess áskildi eigandi húsanna sér þann rétt að fá að ráða yfir sölu alls aflans á staðnum, en fyrir hana eru greidd frá 3 til 5% í umboðslaun. Eigandi úgerðarstöðvarinnar á Hornafirði áskildi sér rétt til þess að taka þessi umboðslaun, og hafa þau numið mun meira en húsaleigugjald báta hér við Faxaflóa. Útgerðarmenn á Austf jörðum eru, sem von er, mjög óánægðir með þetta og hafa krafizt þess að fá að ráða sölu aflans, en þeim hefur verið settur stóllinn fyrir dyrnar, með því að þeir fá ekki verstöðvarnar leigðar, nema leigjandi fái að ráða sölu aflans sjálfur. Það má því segja, að hver sjómaður hafi orðið að greiða háan aukaskatt vegna þessara kjara, eða allt að því 500 kr. af hverjum hlut. Með þeim breyt. á l., sem hér er gert ráð fyrir, yrði bannað að hækka leigu á verstöðvum nema eftir þeim almennu reglum, sem gilda um leiguhækkun annars staðar. Auk þess er gert ráð fyrir því, að þar sem greiðsla eftir verstöðvar hefur farið fram eftir aflahlut, eigi útgerðarmenn kost á að fá leiguna metna og greiða fast gjald sem svarar því, að leigan sé sambærileg við almenna húsaleigu.

Ég vænti þess, að hv. þm. taki vel við þessu frv. ekki sízt með tilliti til þeirra erfiðleika, sem smáútgerðin á við að búa, þar sem fiskverðið er bundið, þó að allur útgerðarkostnaður og allt, sem sjómennirnir verða að kaupa, sé alltaf að hækka. Ég ætla svo ekki að sinni að fara fleiri orðum um þessi mál, en bið hv, þd. að samþykkja frv. til 2. umr. og vísa því til allshn.