18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

94. mál, húsaleiga

Páll Þorsteinsson. Herra forseti. — Eins og hv. þdm. munu þegar hafa gert sér ljóst, þá gerir frv. það, sem hér er komið fram, ráð fyrir, að húsaleigul. séu látin ná til húsnæðis sjómanna, þ.e. verbúða, byggja og palla þeim til afnota í verstöðvum. Í grg. þess er sérstaklega minnzt á Hornafjörð í þessu sambandi og það á þann veg, að ætla má, að frv. sé beinlínis komið fram vegna Hornafjarðar og miðað við þá samninga, sem gilt hafa milli kaupfélagsins í Hornafirði og austfirzkra útgerðarmanna. Ræða hv. flm. frv. gefur ástæðu til að ætla, að frv. sé flutt einmitt vegna þessara samninga. Og í grg. segir (og vil ég lesa það með leyfi hv. forseta):

„Það mun að vísu vera rétt, að leiga eftir útgerðaraðstöðu hefur verið mjög misjöfn á hinum ýmsu stöðum, og í einstökum tilfellum má segja, að leigan hafi verið sanngjörn. En á öðrum stöðum hefur aftur á móti alveg keyrt um þverbak. Sem dæmi þar um vil ég taka Hornafjörð. Á Hornafirði er eina vetrarverstöðin á öllu Austurlandi. Þangað sækir því meginhluti austfirzkra báta á hverjum vetri. Kaupfélagið á staðnum á verbúðirnar og hefur tekið ákveðinn aflahlut í leigu. Húsaleiga fyrir beitingahús og sjómannaíbúðir hefur verið 5% af brúttóaflasölu. Auk þess hefur hver bátur greitt 11/2 skp. í ljósagjald. Auk þessa áskildi kaupfélagið sér að annast alla sölu aflans og njóta fyrir það ekki minna en 3% í umboðslaun, sem fiskflutningaskipin borga. Stærstu bátarnir, sem þarna gerðu út síðast liðna vetrarvertíð, greiddu í húsaleigu og ljós um 8000 kr., auk þess hefur kaupfélagið fengið í umboðsþóknun vegna sölu á afla hvers þessa báts um 5000 kr. Ef þessar tölur eru bornar saman við leigu á verplássum í Sandgerði s.l. vetur, þá sézt bezt, að hér hefur fram farið hið herfilegasta okur. Í Sandgerði greiddi hver bátur fast gjald, 2400 kr., fyrir húsnæði ásamt ljósi, og er húsnæðið þó í Sandgerði mun meira, þar sem þar fylgir með söltunarpláss“.

Þetta er nú það, sem m.a. stendur í grg. frv. og kom fram í síðustu ræðu. Þegar búið er á þennan hátt að draga ákveðinn stað inn í málið og búið að útvarpa því um allt land., að þar sé beitt „hinu herfilegasta okri“, þá get ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um málið. Til samanburðar er nefnt Sandgerði, þar sem hin fullkomnasta sanngirni á að ráða. Ókunnugir kynnu nú að halda, að kaupfélagið á Hornafirði væri hreinasta einokunar- og einræðisstofnun. Ég vil því taka það hér fram, að kaupfélagið er félagsskapur allra Austur-Skaftfellinga nema Öræfabúa og að nálega ekkert heimili í Austur-Skaftafellssýslu, utan Öræfa, mun standa utan við það. Allir starfa þar saman, án tillits til skoðana eða annarrar aðstöðu. Stjórn þess er skipuð mönnum, sem búa sinn í hverjum hreppi á félagssvæðinu.

Sama er að segja um endurskoðendurna. Þeir eru sinn af hvorum enda félagssvæðisins og sinn úr hvorum stjórnmálaflokki. Ég bendi aðeins á þetta til að sýna, að kaupfélagið á Hornafirði er félagsskapur allra Austur-Skaftfellinga að fráteknum Öræfingum. Það er félagsskapur fátækrar alþýðu í sýslunni, sem stjórnað er af fulltrúum fólksins úr hverjum hreppi á félagssvæðinu.

Útgerð vélbáta hefst á Hornafirði um líkt leyti eða litlu síðar en hér á Suður- og Suðvesturlandi. Þá var verzlun héraðsins að mestu leyti í höndum eins kaupmanns. Hann hófst handa um að byggja verstöð á Hornafirði, og þangað sóttu bátar frá Austfjörðum, sem æ síðan hafa gert út vélbátaflota sinn frá Hornafirði að meira eða minna leyti. En rekstur stöðvarinnar gekk ekki eins vel og skyldi í höndum þessa vinsæla og virðulega athafnamanns, og féll útgerðin í hendur bankans, sem lánað hafði til framkvæmdarinnar. Árið 1933 var svo stöðin laus til kaups. Eins og menn muna, var þá landbúnaðarkreppa og árin 1932 og 1933 sérstaklega erfið íslenzkum bændum og þá ekki sízt þeim, sem afskekktir bjuggu og áttu erfitt með sölu á landbúnaðarafurðum. Það var ekkert glæsilegt að ráðast í stórfelld fasteignakaup á þessum tíma, eins og kaupfélag Austur-Skaftfellinga þá gerði, er það keypti verstöðina á Hornafirði. Austur-Skaftfellingar réðust í þessi kaup í bjartsýnni trú á betri tíma og til að tryggja það, að þeir hefðu sjálfir eignarétt á og forgangsrétt til að njóta þeirra gæða, sem þeirra eigið hérað veitir. En síðan hófst mikil kreppa fyrir útveginn, eins og menn muna, að nokkru leyti vegna aflaleysis og að nokkru leyti vegna söluörðugleika. Þetta bitnaði vitanlega á útgerðinni í Hornafirði og annars staðar, en þó sérstaklega þar, vegna þess að þar var aflaleysi meira. Þetta skapaði kaupfélaginu, sem þá hafði nýlega ráðizt í kaup á verstöðinni, mjög mikla örðugleika, og útgerðarmenn hættu margir hverjir að stunda sjó þar eystra, en fluttust hingað suður, og útgerðin dróst svo saman, að tala bátanna, sem lögðu upp á Hornafirði, komst niður í 10, í stað þess að hún er stundum hátt á þriðja tug. Þetta stóð fram til ársins 1939. Þá fór að rakna úr fyrir sjávarútveginum yfirleitt, og þá einnig á Hornafirði, sumpart fyrir löggjöf, en líka vegna þess, að aflinn tók að glæðast og verð hækkaði. Allt frá því, er útgerð vélbáta hófst á Hornafirði, hefur verið sá háttur á, að leiga eftir verstöðina hefur verið tekin í aflahlut. Var það 1/2 fyrst, en síðar 1/15, og þannig stóð það fyrir 9 árum, er kaupfélagið tók við verstöðinni. Lækkaði kaupfélagið leiguna strax ofan í 1/16 af heildarafla, og þannig var það frá því 1933, er verbúðirnar urðu eign kaupfélagsins, og þar til eftir vertíðina 1940. Árin 1941 og 1942 var gjaldið aðeins 1/20, og ég hef það fyrir satt, að á yfirstandandi ári eigi að lækka það ofan í 1/25. Þetta sýnir, að á þessum 9 árum, sem kaupfélagið hefur átt og rekið stöðina, hefur leigan lækkað úr 1/12 aflans ofan í 1/25 part.

Það er tvennt, sem þarna er um að ræða, og kemur það fram í grg. Í fyrsta lagi húsaleiga og ljósatollur, og í öðru lagi umboðslaun. Það liggur í augum uppi, að þar sem leiga er greidd í aflahlut frá ári til árs, þá er hún mjög misjöfn, enda er tekið fram í grg., að tölur þessar gildi aðeins um allra stærstu bátana. Ég held satt að segja, að sú athugasemd í grg. sé ekki ástæðulaus. Ég hef aflað mér upplýsingar hjá kaupfélagi Hornafjarðar um þetta mál, og það hefur tjáð mér, að af þeim 26 bátum, sem lögðu þar upp á síðustu vertíð, hafi 2/5 greitt tæplega 2000 kr., en lægsta greiðsla var tæpar 1000 kr. Meðalgreiðsla allra 26 bátanna var um 3000 kr. á bát. Þetta er sú tala, sem sambærileg er við það fastagjald, sem greitt var í Sandgerði.

Um ljósagjaldið á Hornafirði gilda sérstakar ástæður, þannig að sá, sem á útgerðarstöðina, kom upp þremur olíuhreiflastöðvum, þremur, vegna þess að útgerðarstöðin er í þrennu lagi. Við þessar ljósastöðvar þurfti að ráða sérstaka menn til gæzlu þeirra. Nú hefur rekstrarkostnaður þessara rafstöðva aukist stórum síðustu árin með hækkuðu kaupgjaldi og hækkuðu verði á olíu. Á hinn bóginn get ég ekki fullyrt á þessu stigi málsins, hvort sú hækkun stendur í réttu hlutfalli við verðhækkun aflans. Umboðslaunin fyrir sölu afla eru nokkuð sérstaks eðlis og nýr liður í þessum málum. Slíka þóknun hefur félagið aðeins fengið síðasta ár og að litlu leyti 1941. Að mínum dómi er það ekki alls kostar eðlilegur liður, ef útgerðarmenn hafa aðstöðu til að selja fisk sinn sjálfir og óska þess. En samkvæmt eðli málsins er þetta og á að vera samningsatriði milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og óeðlilegt að fella ákvæði um umboðssölu sjávarafurða inn í löggjöf um húsaleigu.

Enn fremur ber þess að gæta, að leigan er greidd af aflahlut, og þar eð hlutfallið, sem nú er greitt, er útgerðarmönnum hagstæðara en það var, þá hefur hlutur þeirra vitanlega fyllilega hækkað að sama skapi og leigan. Það er því augljóst, að útgerðarmenn eiga sízt erfiðara með að greiða leiguna nú heldur en áður. Kaupfélagið er því í raun og veru þátttakandi í þessum rekstri, arður þess byggist á aflamagni og sölumöguleikum, alveg eins og arður útgerðarmanna og sjómanna. Útgerðarmennirnir eru ekki bundnir við að taka á sig neinar byrðar fram yfir umsamda leigu til að standa straum af þeim gjöldum, sem óhjákvæmileg eru vegna þessara fasteigna. Þeir eru meira að segja ekki bundnir við að nota þær, enda hefur það sýnt sig, að áður, fyrir stríðið, þá voru bátarnir sendir suður á land, og þá stóð útgerðarstöðin á Hornafirði auð að meira eða minna leyti. Þá var hún baggi á kaupfélaginu, og viðhaldskostn. hennar þurfti þá að greiðast af arði verzlunarinnar sjálfrar, m.ö.o. það þurfti að sækja hann í hendur fátækrar alþýðu í héraðinu. Meðan svo stóð, höfðu útgerðarmenn engar óskir fram að bera, og kaupfélagið hélt umtölulaust þá samninga, sem gerðir höfðu verið um leiguna. Nú er sakazt um, að kaupfélagið fái ríflegri hlut en áður og fái að einhverju leyti greitt þann halla, sem var á hinum erfiðari árum. Útgerðarmenn hafa nokkur undanfar in ár grynnkað á gömlum skuldum og jafnvel greitt þær að fullu, svo að það mun ekki geta talizt nein goðgá, þó að kaupfélagið reki stöðina með dálitlum hagnaði, til þess að það nái því upp að nokkru leyti, sem á henni tapaðist á hinum erfiðari árum. Útgerðarmenn njóta þeirra hlunninda, að leigan lækkar, þegar afli verður minni og salan verri.

Hv. 6. landsk. hefur án efa ætlað að bæta hag austfirzkra útgerðarmanna með þessu frv. En hefur þessi hv. þm. gert sér grein fyrir, hver sá grundvöllur er, sem hann byggir hér á? Í frv. er gert ráð fyrir að láta húsaleigulögin frá árinu 1941 gilda um leigu eftir verbúðir, og í 2. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hafi leiga eftir verbúðir verið greidd með aflahlut, getur leigutaki krafizt mats á leigunni, og skal þá ákveða leiguna fast gjald og með tilliti til þess, að leigan hækki ekki nema sem svarar hækkun almennrar húsaleigu. Samkv. l. nr. 106 frá 1941 er svo fyrirmælt, með leyfi hæstv. forseta: „Óheimilt er að hækka húsaleigu eftir húsnæði frá því, sem goldið og umsamið var hinn 14. maí 1940, nema sem svarar auknum viðhaldskostnaði“ o.s.frv. Ef þetta frv. yrði að l., þá þyrfti að meta leiguna til verðs, og hún yrði hin sama og árið 1940, að viðbættu vísitölugjaldi því, sem húsaleiguvísitalan segir um. Nú er um tvær leiðir að ræða til þess að gera sér grein fyrir því. hver sá grundvöllur er, sem þetta frv. er byggt á.

Önnur leiðin, og sú greiðasta að minni hyggju, er sú að fá uppgefið hjá kaupfélaginu, hversu há leigan hefur verið. Hin leiðin er að safna skýrslum meðal útgerðarmanna um þetta atriði. Ef til vill hefur hv. 6. landsk. farið þessa síðari leið og hefur þau gögn hér í höndunum, en samt er það grunur minn, að hagnaðurinn, sem þetta frv. á að fela í sér fyrir austfirzka útgerðarmenn, sé minni en hv. flm. gerir sér ljóst.

Árið 1940 var greiddur 1/16 partur af afla í leigu, en nú er hún komin niður í 1/25 part, en vísitala húsaleigulaganna er, að ég hygg, í kringum 125 stig. Ég tel því frv. þetta óþarft, og meira en það, því að það getur verið varhugavert fyrir báða aðila. Margt bendir nú til þess, að hið mesta gróðatímabil útgerðarinnar sé senn á enda runnið, og það þarf því ekki mikla aflatregðu til þess, að það reyndist vafasamur hagur að lögbinda leiguna á þann hátt, sem frv. þetta felur í sér.

Ég hef nú sýnt fram á, að hér er um að ræða tvo aðila, tvær félagsheildir, sem þarna eiga hlut að máli að því leyti. sem Hornafjörð varðar. Annars vegar kaupfélag Austur-Skaftfellinga á Hornafirði og hins vegar útgerðarmenn á Austfjörðum og kaupfélagið er sá vettvangur, þar sem hagsmunir beggja mætast. Málið á að vera samningsatriði milli þessara tveggja aðila. Útgerðarmenn eiga að kjósa sér fulltrúa til þess að semja við kaupfélagið, en ekki koma hver í sínu lagi eins og þeir hafa gert. Ef slíkir frjálsir samningar ættu sér stað, þá efast ég ekki um, að þessir aðilar geti leyst þetta mál án afskipta Alþ. svo að báðir megi vel við una. Ef þessu er svo háttað á Hornafirði, þar sem flm., háttv. 6. landsk., telur fram fara svo herfilegt okur, að alveg keyri um þverbak, hver skyldi þá efast um sanngirnina í Sandgerði og öðrum sambærilegum stöðum?