26.01.1943
Neðri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (3170)

96. mál, uppdráttur af Íslandi

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Frsm. n. er ekki hér viðstaddur. En það hefur þegar verið mælt fyrir þessu máli, og í raun og veru er málið tilbúið af n. hálfu. Það er flutt af n. En aðeins vegna þess, að spurzt var fyrir um atriði, sem að vísu kemur fram í grg. frv., en snertir ákvæði frv. á þskj. 145, þá hefur verið frestað nú um sinn að láta málið koma fyrir.

Frá mínu sjónarmiði tel ég ekki, að rík ástæða sé til þess að draga málið lengur, enda þótt enn sé verið að leita fyllri upplýsinga en áður voru fyrir hendi um það, sem spurt var um. En þetta atriði var það, að fram kom aths. frá hv. 2. þm. N.-M. viðkomandi því, að enn væri ekki fullvíst og kannske vafasamt, að við Íslendingar gætum helgað okkur eignarrétt að gögnum þessara uppdrátta af Íslandi, sem vitanlega eru geymdir hjá landmælingastofnuninni dönsku og hver hv. þm. kannast við.

Það er erfitt að upplýsa málið frekar en nú er orðið. Undirbúningur frv. gerðist m.a. hjá vegamálastjóra, og unnu þar fleiri að, svo sem Stefán Sigurðsson o.fl., en hann er allra manna kunnugastur í þessum efnum.

Auk þess sem það liggur í augum uppi, að þessi gögn tilheyra Íslandi, sem ekki hefur verið í móti mælt, þá liggja fyrir yfirlýsingar frá forstjóra þessarar stofnunar og reyndar kannske fleiri ráðamönnum, um það, að þeir teldu, að á sínum tíma ættu öll þessi frumgögn að koma hingað heim, enda yrðu þau eign Íslendinga. Nú er ekki kleift að ná í þetta, sem allir vita, af hvaða ástæðum er.

Hv. 2. þm. N.-M. hefur skýrt frá umsögn manns, sem er staddur ytra, að þetta geti verið varasamt, sem í frv. er miðað að. Getur verið, að sá maður hafi heyrt um það, að þessi gögn komi hingað heim eftir stríðið. Og við verðum að hafa það fyrir satt. Og ekki er ástæða til að hindra framgang þessa frv., jafnvel þó að þetta sé ekki alveg upplýst, vegna þess að við verðum að halda fram, að þetta hljóti að vera rétt eins og hér er flutt, af því að öll rök mæla með því. En þótt svo væri, að þetta væri vafasamur hlutur, og þótt svo væri, að stjórnin danska teldi þetta sameign Íslendinga og Dana, og það er það lengsta, sem ég get hugsað mér, að Danir fari um þetta mál, því að ég vil ekki hugsa mér, að Danir telji sér alla heimild á þessu og umráðarétt, þá vil ég biðja hv. þm. að athuga það, að þetta frv. kemur ekki í bága við það, vegna þess að þetta á að vera vernd gegn ásælni annarra manna heldur en Dana og Íslendinga. En þótt Danir hafi ekki haft tækifæri til að láta þetta til sín taka, þá er ekki aðeins okkar réttur, heldur skylda, þar sem við vitum um þetta, að hindra, að þetta eigi sér stað. Þetta frv. er borið fram til verndunar gegn ásælni, sem sjálfsagt er að gera gangskör að því að hindra, hver sem í hlut á. Ég sé því ekki annað en að frv. megi ganga úr þessari hv. d. umræðulaust úr þessu. Ég vænti, að hv. þm. N.-M. og aðrir geri sig ánægða með það. Við komum hér fram sem verndarar þessa, sem engir aðrir eru til þess að vernda. Við erum svo að segja sjálfskapaðir umboðsmenn í þessu. Þykist ég vita, að hv. þm. muni vera mér sammála um það, að hinir hlutaðeigandi dönsku menn muni fagna því, að við höfum gert þetta.

Ég tel ekki þörf á því að taka þennan frest lengri í málinu, en vil lofa hv. þm. því, að innan skamms munu koma fram um þetta mál fyllri upplýsingar, eftir því sem kleift er að ná til.