26.01.1943
Neðri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (3171)

96. mál, uppdráttur af Íslandi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þegar ég gerði fyrirspurn mína hér um þetta mál í hv. d., þá var hún byggð á því, að mér var kunnugt, sem nú er upplýst, að enn væri ekki afgert neitt um það, hver ætti frumgögn fyrir þeirri kortagerð, sem við hér í þessu frv. teljum okkur hafa eignarrétt á. Fyrirspurn mín var ekki byggð á því, að ég byggist ekki við því, að við mundum eignast þennan rétt og fá gögnin í okkar hendur, þegar upp væri gert við Dani um þetta og önnur mál. En mér þótti ekki viðkunnanlegt, meðan ekki er vist um það, hvort við ættum þennan rétt, að við gæfum út l., sem fælu í sér, að við hefðum einkarétt til að gefa þetta út. Á þessu byggðist fyrirspurn mín. Og mér virðist ekkert það fram komið, sem geri réttlætanlegt, að við sláum föstu, að við höfum þennan rétt nú þegar, enda þótt ég sé sammála hv. 10. landsk. um það, að ég tel alveg sjálfsagt, að við fáum hann á sínum tíma. Og út frá því býst ég við, að allir gangi hér og í Danmörku.

Hv. þm. Hafnf. (EmJ) hefur flutt hér brtt. við þetta frv., sem byggist á því, að almennt mun svo vera litið á af þjóðum, að þær hafi rétt til þess að gefa út sjókort, sem meiri eða minni hlutar af löndum séu á. Hv. þm. Hafnf. gerir í brtt. sinni till. um að undanskilja sjókort frá öðrum ákvæðum fyrri málsgr. 1. gr. frv., sem sjálfsagt er rétt hjá honum.

Mér fyndist eðlilegt, eins og málið liggur fyrir, að það væri látið bíða þangað til það væri afgert, að við fengjum eignarrétt á þessum umræddu gögnum að uppdráttum af Íslandi. Þá fyrst álít ég, að við höfum leyfi til að fara með þau sem okkar eign.

Hv. þm. telja sumir, að það geti greitt fyrir því, að um þetta semjist á sínum tíma, ef þetta verður samþ. nú. Ég tel það vafasamt, heldur gæti það jafnvel orðið erfiðara á sínum tíma, ef frv. verður samþ.