26.01.1943
Neðri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3172)

96. mál, uppdráttur af Íslandi

Gísli Sveinsson:

Ég bjóst ekki við, eftir minar góðu upplýsingar, að hv. 2. þm. N.-M. mundi halda svona fast við það, sem hann þó í öðru orðinu fellur frá, að þetta frv., ef samþ. verður, geti orðið jafnvel til þess að hindra framgang þess máls fyrir okkur, sem frv. er um.

Nú væri engin ástæða til að hneykslast á því, sem hér væri gert með afgreiðslu þessa máls, því að það er svo glögglega að orði komizt í grg. frv. (2. mgr.), að þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Frumrit af öllum mælingum og uppdráttum eru geymd hjá greindri stofnun, og er mér kunnugt um, að hún telur heimildir þessar eign Íslands, enda hefur stofnunin annazt þetta starf fyrir Íslands hönd.“ Þetta eru orð vegamálastjóra, sem í grg. greinir. Hér er því í erfiðasta falli um það eitt að ræða. hvort menn vilja lýsa þetta staðleysu. Ég tel, að þetta muni vera sannleikur. Og forsendur þessar gefa fulla heimild til þess, ef ekki skyldu, að taka þar í taumana, viðkomandi þessum rétti, sem við þykjumst eiga, og Danir jafnvel segja, að við eigum, þegar þessum rétti er misboðið. Og þetta frv. miðar að því einu, enda þótt það geti tekið breyt. samkv. brtt. frá hv. þm. Hafnf., að hindra ólögmæta ásælni af hálfu óviðkomandi þjóða á þennan rétt. Frv. gerir þess vegna engan veginn það, sem hv. 2. þm. N.-M. er að tala um, að taka nokkurn rétt af Dönum út af fyrir sig. Því að þótt þeir þættust eiga nokkurn rétt um þetta, þá er hann jafn vel verndaður með þessu frv. eins og okkar réttur. En þeir geta nú ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Það er því engin ástæða til að hindra gap þessa máls. Málið er, eins og það liggur fyrir, hvorki nein títuprjónsstunga eða á neinn hátt ásteitingarefni fyrir Dani eða þá dönsku stofnun, sem hér á hlut að máli, þvert á móti. Enda mætti lengi eltast við það, ef á þessum tímum mætti ekkert gera, sem einhvern tíma gæti orkað tvímælis um, hvort við ættum að hafa fengið samþykki hjá Dönum til, sem er ófáanlegt, eins og stendur, en eftir eðli málsins í þessu tilliti skiptir engu máli, eftir því sem ég hef greint.

Ég óska því, að þetta frv. gangi áfram gegnum þessa hv. d. og sjáist svo, hvort í hv. Ed. verði frekar upplýst um málið. Það má, sem sagt, ekki bíða að hefjast handa um þetta efni.