07.12.1942
Efri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hef leyft mér að flytja þessa till., sem ég lít ekki á sem kjördæmamál, því að annars mætti e.t.v. skoða till. sem ágang á hv. þm. Dal. Skógræktarmálin eru almenn mál í okkar landi.

Það hefur alllengi staðið til, að land það, sem hér er um að ræða, yrði friðað. Það stendur svo á um jörðina, að sennilega verða þar prestaskipti áður en langt um líður. Þar situr nú aldraður maður í embætti. Mætti þá um leið gera þær breyt., sem nauðsynlegar teljast vegna skógræktarinnar. Þessi staður er einhver hinn skjólsælasti á Íslandi, og skógurinn hefur haldizt þar furðanlega þrátt fyrir beitina, en ef þessi stóri hvammur væri friðaður, mundi allur hinn mikli sveigur verða skógi vaxinn fyrir aðgerðir náttúrunnar á einum mannsaldri.

Það er kunnugt, að séra Kjartan Helgason gróðursetti barrvið uppi í hlíðinni fyrir ofan Hvamm. Hann hefur blómgazt svo vel, að sýnilegt er, að jafnvel barrðviður getur ágætlega þrifizt þarna.

Ég hef vissu fyrir því, að skógræktarstjóra mundi þykja vænt um, ef þarna væri hægt að friða landið. Ef nokkuð mælti á móti því, væri það helzt það, að prestur þyrfti að sitja í Hvammi. En athugandi væri, hvort hann væri ekki fullt eins vel settur á Staðarfelli, enda gæti líka komið til mála, að hann væri í Hvammi, en landið væri girt og prestur fengi hæfilegar bætur. Aðaltilgangurinn með þessari till. er samt, að athugað sé, hvort ekki sé hægt að tryggja það, þegar jörðin losnar úr ábúð, hvort hægt sé að framkvæma þessa friðun. Ég vona, að landbn. taki till. vel. Skógræktin dafnar aldrei vel, nema uppeldisstöð sé í hverri sýslu landsins, og við eigum að stefna að því, að svo verði.