07.12.1942
Efri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Þessi þáltill. grípur á máli, sem enginn vafi er á, að við verðum að fara að gefa meiri gaum en áður, en það er skógrækt landsins. Það virðist ætla að verða seinlegt verk að útrýma þeirri trú, að skógur geti ekki vaxið á Íslandi. Þessum misskilningi er gripið niður á með þáltill. þeirri, sem hér er flutt. En það er eins og ekki séu komin fastatök á málið. Það, sem verður að hafa í huga í skógræktarmálunum, er, að skógræktin rekist ekki á aðrar nytjar af landinu. Það er ekki alveg kostnaðarlaust að taka stór landflæmi og girða. Eins og hv. þm. Dal. benti á, finnst mér ekki tekið tillit til þessa í þáltill. Það er ætlazt til, að tekið verði stórt höfuðból og lagt algerlega undir skógræktina, en slíkt er alveg um of. Það, sem þarf að gera, er eins og hv. þm. Dal. benti á, að rannsaka, hvað stórt svæði megi taka án þess að nytjar landsins yrðu skertar til muna.

Það er óþarfi að vekja athygli hv. landbn. á því, að það er mikill misskilningur, ef á að leggja slíkt höfuðból í eyði og hafa þar ekki ábúanda lengur. Það á einmitt að sameina það tvennt, að á jörðinni sé vel búið og að nytjað sé til skógræktar það, sem hægt er.

Ég las fyrir stuttu grein í Andvara, sem ég hafði gaman af, eftir Ólaf bónda á Hellulandi í Skagafirði. Hún er um skipulag sveitabýla og fjallar m.a. um það, að við hvert sveitaheimili skuli ræktaður „bæjarskógur“, til gagns og prýði. Það yrði ekki nema lítill blettur af landrými flestra jarða, sem nægja mundi til þess, að heimilið gæti haft eldivið, en það væru mikil hlunnindi að hafa skógarvið með mótaki. Greinin er eftirtektarverð, og ég vil benda hv. landbn. á að kynna sér hana. Hingað til hefur verið litið svo á, að gott væri að rækta nokkur tré til prýði, og sú hugmynd hefur verið svo rótgróin, að menn virðast hafa gleymt því, að skógræktin getur líka verið til gagns. Bæjarskógur eins og Ólafur á Hellulandi skrifar um, rekur sig ekki á nytjar jarðarinnar, heldur eykur hann þær. Hann getur verið til skjóls fínni gróðri, t.d. matjurtagörðum, og til eldiviðar.