07.12.1942
Efri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Hermann Jónasson:

Út af þessum umr., sem hér hafa farið fram um aukna skógrækt, vil ég taka það fram, að ég álít, að hér sé um að ræða spor í rétta átt. Hvað því viðvíkur, sem hér hefur komið fram, að jörðin Hvammur hlyti að leggjast í eyði, ef þessi till. yrði samþ. óbreytt., þá er það alls ekki rétt. Hitt er annað mál, að þar þyrfti að breyta algerlega um búskap, þannig að þar yrði einungis haft kúabú. Skógurinn þarf líka nauðsynlega áburð og það íslenzkan áburð, og tel ég því ekki hægt að reka skógrækt í Hvammi, nema þar sé búrekstur jafnhliða skógræktinni.

En viðvíkjandi þeim bendingum, sem hafa komið fram um málið til landbn., þá tel ég það nauðsynlegt að koma upp stöðvum til þess að rækta skóg. Mönnum er nú orðið það ljóst, að hér sé hægt að rækta skóg. Þarf í því sambandi ekki annað en benda á björkina, sem hefur vaxið hér. Frá því á landnámstíð hefur henni verið eytt með fjárbeit, eldi og öxi, en það hefur aldrei tekizt að drepa hana.

Nú á síðustu árum hefur það komið í ljós, að hér er hægt að rækta ýmsar káltegundir, sem ekki hafa vaxið hér áður, sem sjá má af því, að hvar sem komið er út um land, er alls staðar hægt að fá hinar og þessar káltegundir og annað grænmeti. Það ætti því að vera lýðnum ljóst, að úr því að hægt er að rækta hér jurtir, sem ekki hafa vaxið hér áður, þá ætti ekki síður að vera hægt að rækta hér trjátegund, sem alltaf hefur vaxið hér og aldrei hefur tekizt að drepa, hversu mjög sem henni hefur verið eytt síðast liðin þúsund ár.

Nú liggur fyrir skýrsla frá ágætum dönskum vísindamanni um vöxt ýmissa trjátegunda á Austurlandi, og gefur hún mjög góðar upplýsingar um þetta mál.

Þetta skógræktarmál, sem hefur aðallega verið hugsjónamát hingað til, er stórmál. Það er stórmál vegna þess, ef skógar væru ræktaðir hér í stórum stíl, þá gæfi hann í aðra hönd allmikið eldsneyti, sem okkur vantar tilfinnanlega, og íslenzkur skógviður gæti einnig orðið til allmikilla nytja á annan hátt, vegna þess hvernig farið er að nota trjávið upp á síðkastið, þ.e. að fletta honum í sundur og búa til úr honum þunnar flögur, sem við notum mikið af til klæðningar o.fl. Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta, en það, sem landbn. þyrfti að hafa í huga viðvíkjandi þessu máli, er það, að hér er ómögulegt að koma upp stórskógi, nema almenningur læri að sá trjáfræi og ala upp trjáplöntur.

Í lítinn bæjarskóg þarf a.m.k. 20000 plöntur, og með því verði, sem nú er á trjáplöntum, mundi það kosta um 10000 kr., þótt hægt mundi að lækka plönturnar eitthvað í verði, eftir að búið væri að koma upp stórum skógræktarstöðvum, þá mundi þó hverjum bónda vera ofvaxið að koma sér upp stórum skógi með því að kaupa allar plönturnar, en ef þær væru aldar smám saman upp á jörðunum, þá væri hægt að kom. upp allstórum bæjarskógi án gífurlegs tilkostnaðar. Það þarf því að kenna fólki að rækta skóg eins og gras og kál.

Það, sem landbn. þarf að athuga í þessu sambandi, er því, að þegar á að fara að fá almenning til að rækta skóg, þá er það ekki hægt með öðru móti en þessu.