16.12.1942
Efri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Eins og nál. landbn. á þskj. 84 ber með sér, þá var n. sammála um þetta mál og að breyta þeirri till., er fyrir lá.

N. kvaddi skógræktarstjóra, Hákon Bjarnason, á sinn fund til umsagnar um þetta mál, og kom það þá fram, að það er ekki ósk skógræktar ríkisins að fá heilar jarðir lagðar undir þá stofnun, heldur fremur hitt, að fá góðar landspildur vel fallnar fyrir skógrækt.

Yfirleitt gerði hann ekki ráð fyrir, að skógræktin hefði nokkuð að gera með þessa jörð sem slíka, nema þá helzt handa skógarverði fyrir Vesturland.

Að fengnum þessum upplýsingum var n. sammála um að breyta till. þannig, að ekki skyldi tekin öll jörðin, heldur aðeins spilda af henni, og yrði þar einnig trjáplöntuuppeldi. Þess vegna þarf Hvammur ekki að leggjast niður sem prestsetur, þótt þetta komi til framkvæmda. Og ég vil skjóta því hér inn, að ég álít, að prestur gæti verið þarna áfram, enda þótt skógarvörður hefði þar aðsetur sitt. Ríkisjörðin Hofakur liggur að Hvammslandi, og gæti þá presturinn fengið nytjar í þeirri jörð, ef þurfa þætti.

Það er enginn vafi á því, að þessi staður er vel til skógræktar fallinn. Þar er bæði skjólsamt og staðviðrasamt eða litlir umhleypingar. Hygg ég, að gott verði fyrir héraðið allt í kring, ef mál þetta nær fram að ganga eftir till. n., því að þarna mun verða hægt að halda námskeið í skógrækt og það jafnvel fyrir utanhéraðsmenn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, en lýsi yfir, að n. óskar eftir, að breyt. hennar á till. verði samþ.