22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (3206)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Hv. þm, Mýr. hefur nú í öllum aðalatriðum skýrt sjónarmið mitt, og hef ég ekki miklu við það að bæta. En af því að ég var búinn að biðja um orðið, vil ég segja nokkur orð. Ég hef í sjálfu sér ánægju af því, að þetta mál er fram komið. Ég hef gaman af að sjá, þegar málið kemur til atkvgr., hvaða menn það eru, seni sitja á Alþingi íslendinga það herrans ár 1943 og eru það langt aftur í fortíðinni, að þeir meta meira bráðabirgðahag einstaklingsins heldur en framtíðarhag þjóðfélagsins, og þá sérstaklega bændastéttar landsins. Ég hef gaman af að sjá við atkvgr. þessa skilgreiningu, því að eins og hv. þm. Mýr. tók fram, þá er máli þessu nú komið svo hér á landi, að með því að samþ. svona l. um óðalsrétt og erfðaábúð, þá er enginn munur á því, hvort maður á jörðina eða ekki annar en sá einn, að nú geta menn ekki lengur selt jarðirnar, þegar þeim sýnist, til þess að græða sem allra mest á þeim og láta niðjan, borga hærri vexti og hafa minna fjárhagslegt olbogarúm en ella.

Það er ekkert undarlegt, þó að úr hópi þeirra, manna, sem fyrst og fremst fylgja þeim, sem lifa á kaupum og sölu, komi raddir um það, að bændur skuli fara eins að. Þessir menn vilja, að þeir, sem eru bændur í dag, geti selt jarðirnar, svo að þeir geti grætt, þó að sá, sem við tekur, verði að bera byrðarnar og berjast hart til þess að geta það. Það er þetta sjónarmið, sem veldur því, að þetta frv. er komið hér fram í ofboð lítið breyttri mynd frá því, sem það hefur áður verið hér í þinginu. Ofboð lítil framför hefur orðið jafnvel hjá þeim mönnum, sem þessu frv. fylgja. Það er ekki langt síðan menn, sem eru sama sinnis og þeir, voru að selja lóðirnar hér í Hafnarstrætinu og við uppfyllinguna, sem nú eru komnar í margfalt verð, og stuðla með því að því að viðhalda dýrtíð á öllum hlutum, en nú eru þeir farnir að vitkast svo, að þeir vilja kaupa jarðirnar af bændum í nágrenninu. Þetta eru þeir búnir að víkka sinn þrönga sjóndeildarhring, en þegar kemur út fyrir þann sjóndeildarhring, þá snertir málið þá ekki meira. Þá má græða á sölunni í dag og leggja vaxtabyrðina á komandi kynslóðir. Þeir menn, sem þetta frv. flytja, eru búnir að fá þá nasasjón, að í 10 ár vilja þeir fyrirbyggja þessa hækkun. Þeir sjá, að í 10 ár sé skaði að þurfa að standa undir hækkuðum vöxtum. Þetta er ofboð lítil framför. Þeir eru farnir að sjá ofboð lítið fram í framtíðina.

Ég sem sagt hlakka til að sjá atkvæðagreiðsluna í þessu máli. Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja það, hvers vegna ég tel, að þetta frv. eigi ekki að ná samþykki þingsins, því að það er búið af hv. þm. Mýr. Það sem hér um ræðir er ekkert nema þetta: Á að selja jarðirnar til þess að geta grætt sjálfur með því að láta þær hækka og hækka í verði og láta vaxtabyrðina falla á þá, sem á jörðunum sitja í framtíðinni?

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, en bíð með ánægju eftir að sjá atkvgr. um málið.