03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

9. mál, flutningur á langleiðum

Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. — Það kom fram á sumarþinginu till. í sömu átt og sú, sem hér liggur fyrir, að víða á landinu er mikil þörf athugana á því, hvernig skuli hlaupa undir bagga með þeim, sem erfiðast eiga um flutninga, sérstaklega á svo kölluðum langleiðum á landi. Till., sem nú liggur fyrir, er lítið eitt breytt að orðalagi frá því, sem hin var, til þess að það komi skýrar fram, að um tvær stefnur er að ræða í þessu máli. Önnur sú, að ríkið annist þetta frekar en nú er, en hin, að ríkisvaldið leggi styrk þeim, sem verða að halda uppi flutningum á langleiðum við erfið skilyrði. En áður en þm. geta tekið afstöðu til málsins, þykir hlýða, að nokkrar athugasemdir komi fram um það, hvora leiðina mætti álíta heppilegri eða hvort ef til vill kæmu fleiri leiðir til greina. Það má ekki lengi draga að komast að niðurstöðu um þetta.

Í grg. till. er tekið upp nokkuð af því, sem áður var fram komið. Hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umr. um till., og hef ég ekkert við það að athuga, þó að það hefði eins mátt vera ein umr., því að um fjárútlát úr ríkissjóði yrði ekki að ræða, nema nýjum mönnum yrði falið málið í hendur, en það virðist óþarft, þar sem ríkisstj. hefur á að skipa góðum embættismönnum, sem leyst gætu þetta mál.

Till. fór til allshn. á sumarþinginu, og vil ég því, að þessi till. fari til allshn. Ég vænti, að Alþ. samþykki till. Ég legg það á vald hæstv. forseta, hvort hann vill fresta umr. nú eða láta till. ganga til síðari umr.