22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Í rauninni er þetta mál ekki nýtt hér í þinginu, og það er því síður nýtt sem deilumál. Það hefur staðið hér þrotlaus deila út af jarðamálum bænda, og sú deila mun standa lengi enn. Það eru tvær gerólíkar stefnur, sem þarna togast á. Annars vegar það, sem gjarnan mætti kalla íhald, sem vill efla þá tryggð, sem bindur sveitafólkið við jarðirnar. Hins vegar er sú stefna, sem vill gera allt landsfólkið að rótlausum lýð, sem allt þiggi af ríkisvaldinu. Þetta eru skoðanir, sem eiga eftir að togast á hér í þinginu, og fer því fjarri, að komið sé að hámarki þeirrar deilu.

Það má öllum vera ljóst, að gifta þjóðarinnar er undir því komin, hvaða tryggð hún ber til þeirra verðmæta, sem fyrri kynslóðir hafa skilið henni eftir, bæði í hugsunarhætti og menningu allri. Eitt af þessu er tryggð manna til ættar, átthaga og fósturjarðar, og það er enginn vafi á því, að það, sem hefur oft haldið mönnum uppi við erfið kjör, við fátækt, nekt og sult, er sú tilfinning, að þeir standi í sporum feðra sinna, á jörð, sem þeir unna, og að þeir ætli ekki að láta falla blett á þau spor, sem feður þeirra settu þá í. Móti þessu eru óskir sósíalista. Óskin um að sölsa undir sig eignarrétt á jörðunum, gera menn að ríkisleiguliðum og uppræta þessa tilfinningu, sem er hjá fjölda manna, tryggð þeirra til átthaganna og jarðarinnar og þrautseigju þá og metnaðartilfinningu, sem því fylgir að standa á sinni eigin jörð og vita, að það getur enginn herra komið sem umboðsmaður hins opinbera og sagt: „Farðu burt af þessari jörð, þú átt hana ekki.“ Það er til gömul saga um höfðingja norður í Eyjafirði. Hann vildi standa yfir höfuðsvörðum bónda eins í næstu sveit. Hann valdi sér til aðstoðar mann einn, sem honum virtist líklegur og var þeim mönnum líkur, sem styðja óheillaverk. Hann sendi þennan mann sem flugumann til Öxarár, og hann átti að hafa það hlutverk að skjóta lokum frá dyrum. Þessi sendimaður, Rindill var hann kallaður, skaut lokum frá hjá bónda, og hann féll þar fyrir ofurefli liðs. Sósíalistar hafa fengið flugumenn til þess að skjóta lokum frá hjá bændum landsins. Ég held, að það hafi verið árið 1934, sem sósíalistar, sem þá voru ekki eins hreinlega skiptir í tvær deildir og nú er, og framsóknarmenn gerðu sín á milli samning um það að ná jarðeignunum undan bændum, og það tókst. Síðan voru árið 1936 numin úr gildi lögin um, að bændur gætu keypt ríkisjarðir, og þá var smeygt inn 17. gr., sem átti smám saman að toga jarðirnar úr eigu bænda, og þessu er fylgt fram þannig, að allar jarðir á Íslandi verða smám saman ríkiseign og allir bændur ríkisleiguliðar

Ég stóð ekki upp hérna vegna þess, að ég haldi, að ég hafi áhrif á þá menn, sem atkvæði greiða hér. Það má vera, að hv. 2. þm. N.-M. hafi aldrei haft ástæðu til að hlakka til hlutanna, en ef hann finnur til sérstakrar tilhlökkunar, þegar á að greiða atkvæði um þetta, er það bara mark um það, að maðurinn er „lítilla sanda og lítilla sæva“, því að ég geri ráð fyrir, að hann viti, að kommúnistar eru nú orðnir svo sterkir hér, að mál bænda verði fyrir borð borin. Við, sem fylgjum frv., gerum hvorki að kvíða né hlakka til. Við vitum, að það tekur langan tíma að brjóta slíkt á bak aftur, en gert mun það verða.

Ég vil taka það fram, að það er ekkert undarlegt við það, að þetta frv. kemur fram núna, þegar jarðeignir eru í nokkuð háu verði. Þegar bændur komust í skuldir vegna erfiðra tíma, var sætt lagi að ná jarðeignunum af mörgum þeirra. Ríkið kom þá til og bauðst til þess að taka jarðeignirnar, ekki til þess að færa mönnum fé í hendur, — það er alveg rangmæli, að bændum hafi verið fengið fé í hendur, sem þeir gætu varið til umbóta á jörðunum, — heldur urðu þeir að láta jarðirnar bara fyrir áhvílandi skuldum. Það var sætt færi, þegar bændur voru svo illa staddir, að þeir gátu ekki borgað, að koma þeim á kné. Margir, sem komust i skuldir, voru óvanir að verða svikarar að gefnum loforðum eins og með vexti og afborganir, og til þess að losna við þá niðurlægingu og skapraun, urðu margir til þess að afhenda ríkinu jarðirnar upp í skuldir. Þetta var ástand, sem ekkert er miðandi við. Ég hef á síðustu 2–3 árum unnið að frv. um afhendingu jarðeigna til bænda í verðlaunaskyni til þeirra, sem reka myndar búrekstur, sem ég hef verið að vona, að gæti orðið til þess, að bændur gætu eignart ríkisjarðirnar smátt og smátt. Ég hef ekki viljað bera þetta fram enn þá, vegna þess að ég hef viljað leita ráða hjá ýmsum góðum mönnum. Þetta frv. flyt ég vegna þess, að vitað er, að efnahagur bænda er betri en hann hefur verið og mun því ekki verða ofraun mörgum að greiða jarðirnar. Það er ekki nema eðlilegt, þegar flestar jarðirnar voru teknar af bændum, þegar þeir voru verst staddir, að þeim sé gefinn kostur á að eignast þær, þegar rýmkast til.

Ég ætla ekki að hafa lengri ræðu um þetta efni. Það er þegar vitað um örlög þessa frv. Það eru hin kommúnistisku trúarbrögð sumra flokka hér í þinginu, sem munu verða í meiri hl. En hins vegar er trú okkar, sem trúum á átthagatryggð og orku til þess að standast óblíða veðráttu meðal þeirra manna, sem lifa á sinni eigin jörð, jörð feðra sinna.