22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (3213)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Það sagði við mig sósíalisti fyrir nokkrum árum, að langörðugast væri að vinna bug á mótspyrnunni í sveitunum, og fór ekki dult með, að sjálfseignarbændurnir væru þar stífastir, þeir þykjast eiga þetta, sem þeir hafa, sleppa því aldrei fyrir nokkurn mun. Það er skiljanlegt, að hv. þm. Reykv. (EOl) sé illa við fjölgun sjálfseignarbænda.

Hann var að spyrja mig, hvort styrkirnir, sem ríkið greiðir bændum, og uppbæturnar t.d. á ull og gærur væru liður í ásókn kommúnismans á bændastéttina. Vitanlega er það mikill þáttur þeirrar ásóknar, það er stéttarpólitík, sem á að gera bændur sem lítilmótlegasta menn í eigin augum, svipta þá andlegu sjálfstæði. Hann er nógu lærður í því hvernig á að gera fólkið lítilmótlegt og laust á velli fyrir hverjum pólitískum goluþyt, sem gengur yfir.

Hann og fleiri þm. voru að tala um jarðabrask og síðan um stórbændur, sem flæmdu burt leiguliða með óvægilegum leigukjörum og hvers kyns yfirgangi. Það er hægt að segja hvaða vitleysu sem er, þegar það er ábyrgðarlaust. Það má t.d. segja, að maður, sem ætlar að ávaxta fé sitt, geti það betur með því að kaupa jörð en með öðru móti. Ég hugsa, að menn, sem leigja jarðir, muni yfirleitt hafa sömu sögu að segja, að þeir fái lítið fyrir. Á Íslandi hefur jafnan verið erfitt að búa, og þar hefur aldrei verið hægt að fá háa leigu af jörðum. Fé, sem lagt er í jarðir, gefur því lítinn ávöxt. Ég held, að ummæli hv. þm. stafi af því, að hann þekkir lítt til þessara hluta. Hann spurði, hví ekki væru gerðar ráðstafanir til að hjálpa mönnum, sem búa á jarðeignum annarra manna, — ekki ríkisins. Það er hægt að spyrja um allt, en ef ætlunin er að koma á sjálfseignarbúskap á Íslandi, er þá ekki eðlilegast að miða slíka spurningu við jarðeignir ríkisins? Væri ekki eðlilegast að byrja á þeim? Með því að ég virði á margan hátt þennan hv. 2. þm. Reykv., skal ég lána honum frv., sem ég hef samið, en ekki borið fram enn þá, því að ég vildi kanna jarðveginn fyrst. Ég vildi þá biðja hann að líta á 3. gr. þessa frv., þar sem ræðir um það að hjálpa mönnum til að eignast ábúðarjarðir sínar, sem eru í eigu annarra manna. Ég tel sjálfsagt, að mönnum sé hjálpað til þess. og slíkt verður að gera, ef menn álíta, að sjálfseignarbúskapur sé heilbrigðastur, en sá búskapur er aðalbúskaparformið á Íslandi, sem betur fer, þótt margar jarðir séu raunar í eigu annarra en ábúenda.

Hv. þm. talaði um ósamkvæmni sjálfstæðismanna, sem vildu láta Rvík eignast jarðir, en taka þær samtímis af ríkinu. Þetta er barnaleg hugsunarvilla. Reykjavík er mikil fjölskylldna, sem þarf að eiga nóg land fyrir sig og sína fjölskyldulimi. Þess vegna er fullkomið samræmi í kröfunni um sjálfsábúð til handa Rvíkurbæ og sveitabóndanum. (EOl: Er þá ekki íslenzka þjóðin öll ein stór fjölskylda?) Þar er öðru máli að gegna. Íslendingar hafa ekki enn ruglað saman reytum sínum á sama hátt og Reykvíkingar. (EOl: Reykvíkingar eru þó þriðji hluti af Íslendingum). Reykvíkingar hafa auðvitað margt sameiginlegt, sem er ekki sameiginlegt öllum Íslendingum. Það er t.d. augljóst, að Reykvíkingar þurfa á sameiginlegu landi að halda til margra hluta, ræktunar og annars. En sé það hins vegar ætlunin, að allir Íslendingar rugli saman reytum sínum og reki sameiginlegan búskap með ríkisþrælahaldi undir einum herra, þá er auðvitað sjálfsagt, að jarðirnar séu ríkiseign. Ég er að vísu ekki vel að mér í landbúnaðarpólitík annarra þjóða, og sízt er ég fróður um þróun þessara mála í Frakklandi. En þegar hv. 2. þm. Reykv. vitnar í það, sem gert var eftir stjórnarbyltinguna þar í landi, og ætlar að nota það sem rök gegn frv., þá missir hann marks. Hann sagði, að jarðeignirnar hefðu verið teknar af stórjarðeigendum og þeim skipt upp á milli bænda. Þessir stórlaxar voru einmitt hver um sig nokkurs konar ríki í ríkinu. Þegar jarðeignirnar voru teknar af þeim, var það hið sama og það, sem á að gera hér: taka jarðirnar af ríkinu og fá þær í hendur bændum sjálfum.