22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (3215)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það er að vísu óþarfi að taka hér enn til máls, því að svo mikið er búið að tala um málið, enda er hér engin nýjung á ferð. Hv. 2. þm. N.-M. hefði því ekki þurft að taka svo mjög á kröftunum sem manni heyrðist hér seinast í ræðu hans. Annars var málfar hans og málflutningur þannig, að erfitt er við að eiga. Hann sagði ýmsar frægðarsögur af sér í viðureign við ýmsa menn lífs og liðna, þar sem hann er raunar einn til frásagnar. En aðalatriði málsins er þó ekki svo flókið, að mjög þurfi að leggja sig í framkróka til að svara þessu. Aðalatriði málsins er einfaldlega þetta, að til skamms tíma var það heimilað í l. að selja ábúendum opinberra jarða býlin. Þetta var allt tekið. Það þarf ekki að kenna mér um það. Það þarf ekki heldur að kenna mér það, ég veit það eins vel og hv. þm. Að vísu eru til l., sem gera þetta hægt undir vissum kringumstæðum, og með kvöð og skilyrðum, en sú almenna og vinsæla heimild, sem áður var í l., er þar ekki lengur. Þetta frv. miðar að því að lögleiða hana aftur, og er hér í rauninni ekki um að ræða annað en leiðrétta það, sem Alþ. hefur orðið á með afnámi þeirrar heimildar, og gera þannig landsetum hins opinbera eins hátt undir höfði og landsetum á jörðum einstaklinga, því að þeir hafa lögheimild til að kaupa jarðirnar á sama hátt og eigendunum er heimilt að selja þær. Hér er með öðrum orðum um það að ræða að heimila kaup og sölu eins og hjá frjálsum mönnum í frjálsu landi. Hér ætti því ekki að þurfa að gera mikinn úlfaþyt, ef ekki lægi á bak við sú mikla stefnubreyting, sem orðið hefur hjá þeim mönnum, er hafa viljað gerast sjálfkjörnir forsvarsmenn bænda: Það virðist sem Framsóknarmenn hafi hert sig upp í þeim ásetningi að halda í 17. gr. jarðræktarl. Það hefur valdið okkur sjálfstæðismönnum vonbrigðum, að þm., sem eru fulltrúar bænda, skuli ekki vilja sansast á að leyfa þessa heimild, svo að aftur verði komið á frelsi og jafnrétti bændum til handa.

Þá þykir mér furðu gegna, að hv. 2. þm. N.-M. skuli tala um þetta mál svo sem hann talaði hér áðan. Það virðist engu líkara en hann sé að hafa þetta mál að fíflskaparmáli. Hann var að tala um, að hann hlakkaði alveg sérstaklega eftir og biði eftir með ánægju atkvgr. þeirri, er á sínum tíma á fram að fara um þetta mál. Eftir hans orðum er þetta mál algerlega úrelt, að leyfa bændum að eiga jarðir sínar.

Annars er maður mörgu vanur frá þessum hv. þm. og ætti því ekki að vera að kippa sér upp við það, sem hann segir í þessu máli sem öðrum, en mig undrar satt að segja stórlega, hve þessi hv. þm. talar ógætilega um þetta mál. Það er misskilningur hjá hv. þm. Mýr., þegar hann er að halda því fram, að þetta frv., ef að l. verður, leiði beint út í jarðabrask og geri ábúendum ókleift að búa á jörðunum. Ég skil ekki þá takmarkalausu ótrú, sem kemur fram hjá þessum hv. þm. á bændum, að þeir séu ekki færir um að fara með fjárráð á sínum eignum. En vitanlega verður ekki hægt að girða fyrir það að fullu og öllu, að jarðabrask geti átt sér stað.

Eins og þessum málum er nú háttað, má hið opinbera nú ekki selja jarðir, en ég ætla, að hann viti það ósköp vel, að þrátt fyrir það ber á jarðabraski hjá okkur í landinu.

Hér er um áframhald af l. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða að ræða, og þá bar ekki svo mikið á þessu og er því ekki ástæða til að fullyrða neitt um, að jarðabrask sigli í hjólfar þessa frv., ef að l. verður. — Það, sem umfram allt verður að hafa í huga, er að líta á staðreyndirnar og vera ekki að koma með fullyrðingar, sem enga stoð eiga í veruleikanum.

Þá var hv. þm. Mýr. að halda fram þeirri firru, að umhyggja og átthagatryggð leiguliðans við jörðina væri engu minni en sjálfseignarbóndans. Dæmið, sem hann tók, sannaði líka á engan hátt það, sem hann vildi rökstyðja. Við vitum reyndar báðir um hina góðu kosti Halldórs á Hvanneyri, en eigi að síður verður þetta ekki algengt dæmi, vegna þess, sem við báðir vitum, en ég kæri mig eigi um að skýra frá hér.

Þá ætlaði ég og að svara hv. 2. þm. Reykv., sem gerði sig sekan í eigi minni firru en hv. þm. Mýr. En með því að hann er ekki nú staddur í þessari hv. d. og þegar er áliðið fundartímans, þá vil ég að svo mæltu gefa hæstv. forseta tóm til að ljúka umr. og slíta fundi.